Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi hversu góð ráðstöfun Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, hafi verið að ráðstafa árlega að með auknu fjármagni 55 millj. kr. til barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) og stytta þannig bið barna eftir göngudeildarþjónustu. „Sú ákvörðun ásamt breyttu skipulagi hefur sannarlega skilað sér í umbreytingu á þjónustustigi fyrir það öfluga starfsfólk sem á deildinni starfar og á mikið hrós skilið fyrir.“
Á kjörtímabilinu 2017-2021 var mjög mikil umræða um langan biðlista hjá BUGL. Var þá haft eftir yfirlækni á BUGL í fréttum „að geðheilbrigðismál barna og ungmenna hefðu verið í ólestri í áratugi og stjórnvöld virtust hafa lítinn áhuga á að bæta þar úr“.
„Við höfum sett okkur markmið um að ekkert barn þurfi að bíða lengur en í 90 daga eftir þjónustu frá því að beiðni þess efnis hefur verið samþykkt og markmiðið náðist um nýliðin áramót,“ sagaði Lilja Rannveig.
„Aukið fjárframlag gerði það kleift að hægt var að ráða fleiri sérfræðinga og fjölga meðferðarteymum göngudeildar úr tveimur í þrjú, þannig að í lok janúar voru 26 börn á þessum biðlista og biðin eftir þjónustu var einungis um einn til tveir mánuðir. Það skiptir miklu máli fyrir börnin og velferð þeirra að við náum að tryggja þeim þjónustu eins fljótt og auðið er.
Stytting biðlistans er ákveðinn áfangasigur sem við eigum að gleðjast yfir. Nú þurfum við í sameiningu að halda áfram að gera vel og gera gott enn betra,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:
„Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili var mjög mikið rætt um langan biðlista hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans sem er í daglegu tali kallað BUGL. Árið 2021 bárust fréttir þar sem vitnað var í yfirlækni á BUGL sem sagði að geðheilbrigðismál barna og ungmenna hefðu verið í ólestri í áratugi og stjórnvöld virtust hafa lítinn áhuga á að bæta þar úr. En í síðustu viku bárust fréttir úr heilbrigðisráðuneytinu um að með auknu fjármagni hefði tekist að stytta bið barna eftir göngudeildarþjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, og það er stórt framfaraskref.
Við höfum sett okkur markmið um að ekkert barn þurfi að bíða lengur en í 90 daga eftir þjónustu frá því að beiðni þess efnis hefur verið samþykkt og markmiðið náðist um nýliðin áramót. Hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson tók ákvörðun um að ráðstafa árlega 55 millj. kr. til málaflokksins. Sú ákvörðun ásamt breyttu skipulagi hefur sannarlega skilað sér í umbreytingu á þjónustustigi fyrir það öfluga starfsfólk sem á deildinni starfar og á mikið hrós skilið fyrir. Fyrir tilkomu aukna fjárframlagsins biðu að jafnaði 100–130 börn eftir þjónustu og biðin var oft talin í mörgum mánuðum. Aukið fjárframlag gerði það kleift að hægt var að ráða fleiri sérfræðinga og fjölga meðferðarteymum göngudeildar úr tveimur í þrjú, þannig að í lok janúar voru 26 börn á þessum biðlista og biðin eftir þjónustu var einungis um einn til tveir mánuðir. Það skiptir miklu máli fyrir börnin og velferð þeirra að við náum að tryggja þeim þjónustu eins fljótt og auðið er. Stytting biðlistans er ákveðinn áfangasigur sem við eigum að gleðjast yfir. Nú þurfum við í sameiningu að halda áfram að gera vel og gera gott enn betra.“