Categories
Fréttir

Stuðningi Íslands við niðurstöður leiðtogafundar heitið

Deila grein

24/05/2016

Stuðningi Íslands við niðurstöður leiðtogafundar heitið

LiljaAlfreðsdóttir-utanríkisráðuneyti02Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hét í dag stuðningi Íslands við meginniðurstöður leiðtogafundar um mannúðarmál, sem haldinn er í Istanbúl í Tyrklandi. Í ávarpi á þessum fyrsta leiðtogafundi sinnar tegundar lagði hún jafnframt áherslu á mikilvægi kynjajafnréttis og sagði fátt betur til þess fallið að koma í veg fyrir átök og leysa deilumál en aðkoma kvenna. Meginniðurstöður leiðtogafundarins, sem hefur verið í bígerð í fjögur ár, miðast að því að umbreyta fyrirkomulagi neyðar- og mannúðaraðstoðar í heiminum, þannig að hún skili betri árangri. Tilefnið er ærið, þar sem mannkynið stendur frammi fyrir miklum áskorunum af völdum ófriðar, náttúruhamfara, sárrar fátæktar og áhrifa loftlagsbreytinga.
Utanríkisráðherra segir Íslendinga þekkja vel mikilvægi samstöðu þegar tekist er á við erfið verkefni. ,,Þess vegna hefur Ísland lagt til umtalsvert fjármagn á þessu ári og því síðasta til að aðstoða þá verst stöddu vegna átakanna í Sýrlandi. Og af sömu ástæðu styður Ísland allar meginniðurstöður leiðtogafundarins,” sagði Lilja.
Ráðherra hét auknum stuðningi við Neyðarsjóð SÞ (CERF) á næstu árum en framlög til neyðar- og mannúðarmála hafa á undanförnum árum numið að jafnaði um 200 milljónir króna. Til viðbótar við þetta kemur aukaframlag ríkisstjórnar upp á 250 milljónir árið 2015 og 500 milljónir árið 2016 vegna neyðarástandsins sem skapast hefur vegna stöðunnar í Sýrlandi.
Meginniðurstöður fundarins fela í sér stuðning við fimm markmið: sterkari pólitíska forystu til að koma í veg fyrir og binda enda á átök; að höfð verði í heiðri gildi sem standa vörð um mannúð og mannréttindi; að enginn gleymist; að í stað þess að fólk í neyð hljóti neyðaraðstoð verði ráðist að rótum vandans og sjálfri þörfinni fyrir neyðaraðstoð eytt; og að fjárfest verði í því sem gerir okkur mannleg; menntun, þekkingu o.s.frv.
Utanríkisráðherra notaði tækifærið á fundinum í Istanbúl til að hitta ýmsa ráðamenn og nokkra af forystumönnum stofnana Sameinuðu þjóðanna. Hún hitti m.a. yfirmann neyðar- og mannúðaraðstoðar SÞ í Líbanon, Philippe Lazzarini. Ísland veitti á síðasta ári 98 milljónum ísl. króna til sérstaks sjóðs OCHA til handa Líbanon, en fjármunir úr honum eru nýttir til að veita sýrlensku flóttafólki nauðsynlega aðstoð. Ísland hefur sem kunnugt er þegar tekið á móti 48 sýrlenskum flóttamönnum, á grundvelli samkomulags við Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) og von er á fleiri flóttamönnum síðar á þessu ári.
Ráðherra fundaði einnig með Pierre Krahenbuhl, framkvæmdastjóra Palestínuflóttamannahjálpar SÞ (UNRWA), en Ísland hefur um árabil stutt við UNRWA og veitti nýverið fimmtíu milljónum ísl. króna til fjársöfnunar UNRWA í þágu Palestínumanna sem eiga um sárt að binda vegna átakanna í Sýrlandi.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is