Categories
Fréttir

„Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur“

Deila grein

26/09/2024

„Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var gestur í Bítinu á Bylgjunni og ræddi forskotið er Ísland er komið með í heimi gervigreindar. En menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur gefið út leiðarvísi sem fjallar um hvernig íslensk máltækni hefur náð fótfestu í heimi gervigreindarinnar og ávinning samstarfs íslenskra stjórnvalda og þeirra samstarfsaðila við tæknifyrirtækið Open AI. Leiðarvísirinn er gefin út á íslensku og ensku í samstarfi við íslenska gervigreindar- og máltæknifyrirtækið Miðeind og Almannaróm, miðstöð máltækni á Íslandi ber heitið Íslenska-nálgunin: Hvernig stuðla má að fjölbreytni tungumála og menningar á sviði gervigreindar.

„Þetta er lykillinn að því að tungumálið okkar lifi og ég hef stundum líkt því við þegar var verið að þýða Biblíuna yfir á hin ýmsu tungumál, þá náðu tungumálin að lifa í stað þess að hafa þetta allt á latínu. Þetta er bara nákvæmlega sama vegferðin og eftir þessu er tekið, en við erum ekki alveg komin í mark,“ sagði Lilja Dögg.

Umsjónmaður Bítisins, Heimir Karlsson, lagði spurningu fyrir gervigreindina á meðan viðtalinu stóð, þar sem hann spurði hvað hún myndi sjálf gefa sér í einkunn fyrir íslensku, frá 0 upp í 10. Svarið sem hann fékk var athyglisvert, „ég myndi gefa mér sjálfri 7 í einkunn í íslensku. Ég get yfirleitt svarað spurningum og notað rétt málfar en er ekki fullkomin og gæti gert smávægilegar villur í flóknari samhengi“.

Íslenska-nálgunin var kynnt tæknisamfélaginu á málþingi Open AI sem haldin var í tilefni af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York á mánudaginn. Inntak málþingsins var að setja áherslu á að leysa flókin samfélagsvandamál með hjálp gervigreindar og stuðla þannig að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Lilja Dögg var gestur í pallborðsumræðum fyrirtækisins um fjölbreytni menningar- og tungumála í gervigreind. Sam Altman, forstjóri OpenAI, og Anna Makanju aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóðamála Open AI voru gestgjafar viðburðarins og stýrði Anna pallborðsumræðunum. Aðrir þáttakendur voru Robert Opp, strafrænn þróunarstjóri UNDP, Gabriela Ramos, aðstoðarframkvæmdastjóri félags- og hugvísinda, UNESCO, Max K gervigreindarsérfræðingur hjá UNESCO og Dr. ‘Bosun Tijani, samskipta-, nýsköpunar- og stafrænn efnahagsráðherra Nígeríu.

„Með því að tryggja að nýjasta tækni sé aðgengileg á íslensku getum við teygt okkur í allar áttir. Ég er full af tæknilegu hugrekki eftir að hafa séð þann árangur sem náðst hefur með aðstoð gervigreindar í flóknum verkefnum þar sem aukin tækifæri og jöfnuður verða raunhæfur kostur með tilkomu gervigreindarinnar. Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur. Velgengnisssögur dagsins í dag spanna allt frá aukinni uppskeru til stórbætts árangurs í menntun og heilbrigðismálum. Með samhentu átaki í máltækni eru stjórnvöld að tryggja að landsmenn geti tekið þátt í nýjustu tækni – á íslensku,“ segir Lilja Dögg.

Í leiðarvísinum leggur Ísland til að unnið verði að stofnun alþjóðlegs samstarfsverkefnis fyrir tungumál og menningarheima sem hafa ekki náð fótfestu í nýrri tækni. Í slíku samstarfi yrði komið á alþjóðlegum gagnreyndum aðferðum og þróuð mælipróf fyrir getu mállíkana í slíkum tungumálum. Slíkt samstarf myndi einnig auðvelda gagnasöfnun og geymslu gagna og styðja við rannsóknir á sviði fjölmenningarlegrar og margmála gervigreindar. Slíkt verkefni ætti að fela í sér aðkomu hagsmunaaðila frá gervigreindarfyrirtækjum, rannsókna- og fræðasamfélaginu, ríkisstjórnum og fulltrúum samfélagsins, svo og alþjóðlegum stofnunum á borð við UNESCO.

Samstarfið skilar gríðarlegum árangri

Ísland og OpenAI hófu samstarf sitt við að þjálfa ChatGPT í íslensku árið 2022. Ráðist var í samstarfið í kjölfar heimsóknar sendinefndar forseta Íslands og menningar- og viðskiptaráðherra til Bandaríkjanna þar sem hún fundaði meðal annars með Sam Altman, forstjóra OpenAI. Miðeind kom að samstarfinu fyrir hönd Íslands og hefur fyrirtækið unnið náið með OpenAI; deilt með því íslenskum gögnum úr máltækniáætlunum stjórnvalda, veitt líkaninu endurgjöf í þjálfun og mælt bæði skilning þess á íslensku og færni í að mynda réttar setningar á íslensku. Árangurinn af máltæknivinnu Íslands er ótvíræður en allar mælingar á færni líkana OpenAI milli uppfærslna sýna stórbætta íslenskugetu þeirra. Sjá nánar. 

Yfirlýst markmið OpenAI með samstarfinu við Ísland hefur ávallt verið að komast að því hvaða aðferðir nýttust best við að kenna stóru mállíkani eins og ChatGPT tungumál sem fáir tala. Samstarfið hefur leitt ýmislegt í ljós, bæði hvaða aðferðir virðast nýtast best en einnig hvaða aðferðir virka illa. Í leiðarvísinum er helsti lærdómur Íslands af samstarfinu dreginn saman og farið yfir það máltæknistarf sem unnið hefur verið hér á landi frá árinu 2019, þegar máltækniáætlun 1 var sett í gang. Með henni fjárfestu stjórnvöld í gagnasöfnun fyrir íslenska tungu og þróun nauðsynlegra tæknilegra innviða fyrir tungumálið og heldur sú vinna áfram að gefa og byggir Máltækniáætlun 2 á þeim árangri en sú áætlun gildir til 2026.