Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að setja skorður við eignarhaldi erlendra aðila í sjókvíaeldi á Íslandi.
Samkvæmt tillögunni verði atvinnuvegaráðherra falið að leggja fram frumvarp sem takmarkar eignarhlut erlendra aðila í fyrirtækjum með rekstrarleyfi til laxeldis í sjó við strendur Íslands við hámark 25 prósent.
Sjá nánar: Tillaga til þingsályktunar um eignarhald erlendra aðila á fyrirtækjum í lagareldi.
Í greinargerð með tillögunni er bent á að líta megi til Færeyja þar sem sambærileg ákvæði eru þegar í gildi. Sérstök áhersla verði lögð á að lagasetningin samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt alþjóðasamningum og regluverki EES.
Laxeldi nýtt sem auðlind sem þjóðin á
Í greinargerðinni segir að markmið breytinganna sé að tryggja að laxeldi á Íslandi verði fyrst og fremst í eigu og undir stjórn íslenskra aðila. Með því verði stuðlað að sjálfbærri nýtingu auðlinda, vernd lífríkis og efnahagslegu sjálfstæði landsins.
„Til margra ára hafa verið takmörk á eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi. Þau takmörk eru byggð á þeirri hugsun að auðlindir landsins eigi að vera undir stjórn innlendra aðila. Engin rök standa til annars en að sömu sjónarmið eigi við um sjókvíaeldi á laxi við strendur Íslands,“ segir í greinargerðinni.
Mikilvæg útflutningsgrein
Laxeldi hefur á undanförnum árum orðið ein mikilvægasta útflutningsatvinnugrein Íslands og lykilstoð í atvinnulífi margra byggðarlaga. Flutningsmenn tillögunnar segja að efnahagslegir hagsmunir þjóðarinnar krefjist þess að greinin sé háð ábyrgri stjórnun og öflugu eftirliti.
Lagt er til að breytingarnar verði gerðar með því að útvíkka gildandi lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, þannig að þau nái einnig til sjókvíaeldis.
Aðlögunartími fyrir erlenda fjárfesta
Erlendir fjárfestar eiga stóran hlut í íslenskum sjókvíaeldisfyrirtækjum í dag, einkum aðilar frá Noregi. Tillagan gerir ráð fyrir að þeim verði gefinn aðlögunartími til að lækka eignarhlut sinn niður í 25 prósent. Að mati flutningsmanna ættu fimm ár að vera hæfilegur frestur til þess.
„Með því að takmarka erlenda eignaraðild við 25% er dregið úr hættu á að arðurinn af mikilvægri auðlind falli í hendur erlendra fjárfesta sem gætu haft aðrar forsendur en langtímahagsmuni íslensks samfélags að leiðarljósi.,“ segir í greinargerðinni.