Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, átti orðastað við forsætisráðherra á Alþingi um afstöðu stjórnvalda til Reykjavíkurflugvallar í óundirbúnum fyrirspurnartíma. „Í áratugi hefur Samfylkingin verið með andóf gegn Reykjavíkurflugvelli í borgarstjórn Reykjavíkur, talað ótal sinnum um að nauðsynlegt sé að flugvöllurinn fari og komið alls konar hugmyndum á framfæri sem hafa takmarkað rekstraröryggi og minnkað öryggi flugvallarins, eins og uppbyggingunni á Hlíðarenda, eins og að þráskallast við í meira en áratug,“ sagði Sigurður Ingi.
„Það er almannavarnaástand. Forsætisráðherra, hvað ætlar dómsmálaráðherra að gera í því? Hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera í því að sjúkraflugið er stopp og heilbrigðismál eru upp í loft? Hvað ætlar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að gera í stjórnsýslunni sem er með Samgöngustofu og Isavia? Þess vegna spyr ég forsætisráðherra, þetta heyrir undir fleiri ráðuneyti. Hver er stefna Samfylkingarinnar í raun? Það þurfti að sprengja meiri hlutann í Reykjavík til þess að oddviti Samfylkingarinnar í beinni útsendingu í gær fór að tala um að Reykjavíkurflugvöllur væri þar sem hann væri og væri sennilega mikilvægur og ekkert að fara. Það er alveg nýtt hljóð. Er það hin nýja stefna Samfylkingarinnar? Er það vegna þess að núverandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, er byrjaður að saga niður þessi tré sem er löngu tímabært að saga? Hvort sem þau verða tugir í dag og 500 á næstu tveimur vikum sem borgarstjóri ætlar að hafa forgöngu um þá er það mikilvægt. En hver er stefna ríkisstjórnarinnar með Samfylkinguna í broddi fylkingar?“
Sjá nánar: Afstaða stjórnvalda til Reykjavíkurflugvallar.