Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.
Markmið tillögunnar er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna og aukinn hvata til þess. Tillagan er í samræmi við íþróttastefnu stjórnvalda sem var lögð fram árið 2019.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.“
„Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða sinni íþróttaþátttöku vegna þess — og það þekki ég ágætlega þrátt fyrir að hafa ekki verið afreksmaður sjálfur, en hafandi verið sveitarstjórnarfulltrúi og þurft að taka á málum sem þessum — að fyrirtæki veigra sér við því að ráða starfsmenn sem þurfa að vera mikið frá vinnu vegna tíðra æfinga og keppnisferða,“ sagði Ágúst Bjarni.
Keppnisíþróttafólk er þá í þeirri stöðu að velja hvort það eigi halda áfram æfingum og keppni, með óvissa framfærslu sína eða hreinlega að hætta keppni, enda þurfa einhverjir mögulega að sjá fyrir fjölskyldu.
„Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk auk þess ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur, rétt til þess eða fæðingarorlofs,“ sagði Ágúst Bjarni
Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur sett af stað ákveðna vinnu í gang til að styrkja alla umgjörð í kringum afreksíþróttastarf.
„En það breytir því ekki að við erum með aðra hlið á peningnum sem þessi tillagan gengur aðallega út á, að það sé hvati hjá fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og öðrum að ráða til liðs við sig þessa einstaklinga. Það skiptir mjög miklu máli að mínu mati að þessi hvati sé til staðar,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Ég myndi halda að það væri mjög jákvætt fyrir flest fyrirtæki að fá slíka einstaklinga til liðs við sig. Það er alveg sama hvert er litið, hvernig þessir einstaklingar borða, æfa og slíkt, það er ákveðin einbeiting og fókus sem kemur með slíku fólki sem ég myndi halda að væri til bóta eins og ég hef áður sagt,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Það er nú þannig að ef einhvern tíma næst samstaða í samfélaginu okkar þá er það þegar okkar fólki gengur vel á alþjóðavettvangi og það er í raun sama í hvaða íþróttagrein það er, það myndast einhvern veginn alltaf ákveðið stolt, alveg sama hver á í hlut, af fólkinu okkar og við erum mjög glöð öll sem eitt að taka á móti fólki og fagna því og lyfta því upp þegar vel gengur. En það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd. Það verður að tryggja þessu fólki nauðsynlega og góða umgjörð til að styrkja það í því verkefni sínu að ná árangri á alþjóðavettvangi og það hafi getu og burði til þess að standa til jafns við mótaðilann, ef svo má segja, fólk annars staðar í heiminum sem er að keppa í sömu greinum, það geti staðið þeim einstaklingum jafnfætis,“ sagði Ágúst Bjarni.