Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, beindi sjónum sínum að stöðu ferðaþjónustunnar og þeim áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir vegna hækkandi umhverfisgjalda, sérstaklega í gegnum ETS-kerfið sem tekur til flugs og siglinga. Halla Hrund sagði mikilvægt að ríkisstjórnin greini áhrifin vandlega og tryggi samkeppnishæfni íslenskra samgangna „hratt og vel“.
„Ferðaþjónustan skilar um 34% af útflutningstekjum Íslendinga og er gríðarlega verðmæt fyrir byggðir um allt land,“ sagði Halla Hrund og bætti við að á „degi ferðaþjónustunnar“ í síðustu viku hafi komið í ljós samdráttur í komum ferðamanna frá Bandaríkjunum, hóps sem hafi yfirleitt haft háan greiðsluvilja hér á landi.
ETS-kerfið ekki hannað að íslenskum aðstæðum
Í máli Höllu Hrundar kom fram að gjöld tengd ETS-kerfinu séu að hækka og geti dregið úr samkeppnishæfni Íslands, þar sem kerfið sé „ekki að fullu hannað fyrir okkar aðstæður“. Hún benti á að kerfið hvetji til lestarsamgangna í stað styttri flugferða: „Það er augljóst að það kemur enginn ferðamaður hingað til lands með lest,“ sagði hún.
Halla Hrund vakti jafnframt athygli á því að á næsta ári rennur út undanþága sem snýr að losunarheimildum fyrir Ísland er varða flug. „Það er ótrúlega mikilvægt að ríkisstjórnin greini þessi áhrif vel og fari í aðgerðir sem bæði geta tryggt samkeppnishæfni flugsins okkar og líka þegar kemur að skipasiglingum.“
Vill heildstæða nálgun í loftslagsmálum
Halla Hrund lagði áherslu á að loftslagsmarkmið og samkeppnishæfni þurfi að fara saman. Hún nefndi sem dæmi að Icelandair hafi þegar náð samdrætti í losun með fjárfestingu í nýjum flugflota og hvatti áfram til fjárfestinga sem auka orkuöryggi og styðja grænni framtíð.
„Við eigum að horfa á umhverfismál heildstætt… en í ljósi mikilvægi samgangna til og frá landinu hvet ég ríkisstjórnina til að vinna þetta mál hratt og vel.“
Atvinnustefna í mótun
Halla Hrund sagði ferðaþjónustuna verða kjarnagrein, eða ein af kjarnagreinum, í atvinnustefnu Íslands sem nú er í mótun hjá ríkisstjórninni. „Við hlökkum til að vinna að [henni],“ sagði hún.
