Categories
Fréttir

„Það tókst að skapa þrisvar sinnum fleiri sumarstörf en gert var eftir efnahagshrunið“

Deila grein

28/08/2020

„Það tókst að skapa þrisvar sinnum fleiri sumarstörf en gert var eftir efnahagshrunið“

„Virðulegi forseti. Covid-faraldurinn kom til okkar eins og þruma úr heiðskíru lofti, líkt og komið hefur verið inn á í umræðum hér. Ríkisstjórnin hefur brugðist við af festu í öllum aðgerðum sem gripið hefur verið til. Mörg þeirra verkefna sem við öll í þessu samfélagi höfum verið að vinna að höfum við þurft að framkvæma í breyttri mynd eða leggja til hliðar vegna Covid-19. Hjá ríkisstjórninni hefur allur tími verði nýttur í að bregðast við faraldrinum, tryggja þjónustu og verja fólk og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Framsóknarflokkurinn og ég höfum lagt áherslu á það að verja hópa í viðkvæmri stöðu. Það höfum við gert innan félagsmálaráðuneytisins. Það hefur menntamálaráðherra gert innan menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórnarráðherra innan sveitarstjórnarráðuneytisins.

Sem ráðherra félagsmála get ég sagt að við unnum eftir því kerfi í gegnum kórónufaraldurinn að tryggja samvinnu og samstarf á milli allra aðila sem voru að þjónusta viðkvæma hópa í samfélaginu. Með samvinnu við sveitarfélög og með samvinnu við frjáls félagasamtök tókst í gegnum faraldurinn síðasta vetur að tryggja, því sem næst, þjónustu við alla viðkvæma hópa í íslensku samfélagi. Ég vil þakka hinu öfluga starfsfólki sem hefur staðið í framlínunni, ekki bara í heilbrigðiskerfinu heldur líka í félagsþjónustunni, í þjónustu við viðkvæma hópa við afar krefjandi aðstæður. Það hefur staðið vaktina í sveitarfélögum landsins og gerir það enn þá núna þegar veiran er að skjóta sér niður á nýjan leik.

Í viðkvæmum hópum í samfélagi okkar er fólk í viðkvæmri stöðu. Þetta eru kannski ekki háværustu hóparnir í samfélaginu en þetta er fólk sem þarf, miklu meira en við sem erum í þessum þingsal, á eðlilegri rútínu að halda. Það þarf að geta sinnt eðlilegu lífi, mætt í vinnuna og á þá staði sem það þarf í daglegu lífi. Þetta fólk þurfti að þola mikla félagslega einangrun síðasta vetur. Við höfum eytt um 6 milljörðum kr. af almannafé til að tryggja félagslegar úrbætur fyrir þessa hópa núna í sumar og á vormánuðum og þeim fjármunum er einkar vel varið. Ég vil líka segja að viðkvæmir hópar mega ekki við því að veiran skjóti niður rótum á nýjan leik þannig að fólk þurfi að loka sig inni í allan vetur, eins og það þurfti að gera síðasta vetur.

Hvað varðar vinnumarkaðinn þá höfum við farið í margvíslegar aðgerðir í vinnumarkaðsmálum og munum halda áfram á þessum þingstubbi að ræða frekari aðgerðir. Við munum halda áfram á þingvetrinum sem fram undan er að ræða aðgerðir hvað þetta snertir; hlutabótaúrræðið, greiðslur til fólks sem fer í sóttkví og sumarstörfin sem við sköpuðum á nýliðnu sumri. Það tókst að skapa þrisvar sinnum fleiri sumarstörf en gert var eftir efnahagshrunið og náðist ekki að fylla í öll sumarstörfin fyrir námsmenn. Við erum að undirbúa aðgerðir sem ræddar verða í þinginu er varða námsúrræði fyrir þá sem hafa verið langtímaatvinnulausir og við munum þurfa að ráðast í frekari aðgerðir. En þegar menn segja að ríkisstjórnin hafi ekki notað sjóði almennings til að grípa fólkið og fjölskyldurnar sem hafa misst vinnuna þá er það beinlínis rangt. Á yfirstandandi ári munu yfir 70 milljarðar af almannafé renna í gegnum atvinnuleysistryggingar til fólks, til heimila, sem hefur misst vinnuna. Til samanburðar runnu á síðasta ári rúmlega 20 milljarðar í atvinnuleysistryggingar og 24 milljarðar á árinu 2009. Það fer þrisvar sinnum hærri upphæð núna í það að grípa fólk, grípa fjölskyldur.

Síðan vil ég segja að þessi veira er ólíkindatól, eins og komið hefur fram. Kannski er best fyrir okkur að viðurkenna að við erum ekki með öll svörin. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þess vegna er lykilatriði að halda áfram að vera snögg að bregðast við, vera tilbúin að endurskoða ákvarðanir og taka aðra stefnu ef veiran fer að haga sér öðruvísi. Það hefur ríkisstjórnin haft að leiðarljósi. Það hef ég haft að leiðarljósi og það eigum við að hafa að leiðarljósi á komandi vetri.“

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, á Alþingi 27. ágúst 2020.