Kæra Framsóknarfólk!
Um síðustu helgi fóru fram einhverjar mestu hamfarakosningar í sögu þjóðarinnar og ekki síður í sögu flokksins okkar. Það þarf ekki að segja ykkur að aðdragandi kosninganna var stuttur, þarf ekki að segja ykkur að ákvörðun samstarfsflokks okkar í ríkisstjórn var ekki tekin með hag þjóðarinnar í huga. Hún getur verið grimm þessi pólitík.
Við gengum til orrustunnar vígamóð eftir átök síðustu mánaða. Þjóðin vildi breytingar. Hún var orðin þreytt á þessari ríkisstjórn sem var, þrátt fyrir að einstaka þingmenn samstarfsflokkanna væru í virkri stjórnarandstöðu, búin að ná tökum á verðbólgunni, búin að ná tökum á útlendingamálunum. Þjóðin vildi breytingar og upp úr kjörkössunum kom breytt pólitískt landslag þar sem tveir flokkar á þingi þurrkuðust út. Annar þeirra sem féll í valinn var Vinstrihreyfingin – Grænt framboð sem hafði setið í ríkisstjórn í ellefu ár frá árinu 2009, og átt forsætisráðherra í rúm sex af þeim árum.
Ég er ákaflega stoltur af flokknum okkar. Stoltur af því hvernig við börðumst fram á síðustu mínútu þrátt fyrir að skoðanakannanir væru ekki upplífgandi og sumar spáðu dauða Framsóknar á Alþingi Íslendinga. Við sjáum á þessu grafi frá Kosningasögunni að barátta okkar skilaði árangri þótt við hefðum auðvitað vilja rísa hærra.
Við sjáum á eftir gríðarlega öflugum félögum sem féllu í þessari orrustu. Þrír ráðherrar, Lilja Dögg, Ásmundur Einar og Willum Þór, höfðu öll unnið stórvirki í sínum störfum fyrir land og þjóð. Öflugir þingmenn okkar, Lilja Rannveig, Halla Signý, Jóhann Friðrik, Ágúst Bjarni, Hafdís Hrönn, höfðu verið sterkar raddir fyrir kjördæmin sín og flokkinn á þingi. Þá vil ég einnig nefna Líneik Önnu sem gaf ekki kost á sér að þessu sinni en mikil eftirsjá er að.
Kæru Félagar.
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Við höfum frá árinu 2013 setið í ríkisstjórn með níu mánaða hléi. Störf okkar hafa reynst þjóðinni dýrmæt. Nú munum við verða sterk rödd Framsóknar í stjórnarandstöðu með fámennum en öflugum þingflokki sem ásamt mér mynda Stefán Vagn, Ingibjörg Isaksen, Þórarinn Ingi og okkar nýi og öflugi þingmaður, Halla Hrund.
Ég þakka ykkur öllum fyrir ómetanlega baráttu við erfiðar aðstæður.
Bestu kveðjur,
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar