Categories
Fréttir

Þarf RÚV að vera á auglýsingamarkaði?

Deila grein

04/04/2022

Þarf RÚV að vera á auglýsingamarkaði?

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, sagði í umræðu um umhverfi fjölmiðla á Alþingi í liðinni viku að mikilvægt væri að ræða stöðu Ríkisútvarpsins í nútímanum, hvort að RÚV verði að vera á auglýsingamarkaði? Hvort þörf væri á því að hafa tvær opinberar útvarpsstöðvar, þ.e. Rás 1 og Rás 2?

„Það liggur í augum uppi að það er hægt að hagræða betur, bæði í þágu ríkissjóðs og fjölmiðlastéttarinnar. Mögulega getur það verið til hagsbóta að leggja Rás 2 niður. Fjölmargar einkareknar útvarpsstöðvar eru starfræktar í dag og RÚV þarf einungis eina útvarpsstöð til að sinna sínum starfsskyldum og vera til staðar ef þörf er á,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Virðulegur forseti. Samkeppnin á íslenskum fjölmiðlamarkaði er hörð. Einkareknir miðlar hafa ítrekað bent á erfiðið við að keppa við ríkisrekinn miðil, þ.e. Ríkisútvarpið. RÚV rekur sjónvarpsstöð og útvarpsstöðvar sem eru aðgengilegar öllum ásamt því að vera á auglýsingamarkaði. Sú blanda leiðir vissulega til þess að þeir sem vilja auglýsa leita fyrst til RÚV. Frjáls fjölmiðlun er mikilvæg lýðræðislegri umræðu. Hún veitir stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Þó getur það reynst þeim erfitt að finna rekstrargrundvöll í samkeppni við þann risa sem RÚV er, en auglýsingamarkaðurinn horfir einnig til erlendra efnisveita á borð við Instagram og Facebook í meira mæli en áður.

Á síðasta kjörtímabili lögfesti ríkisstjórnin styrki til einkarekinna fjölmiðla að norrænni fyrirmynd til að jafna samkeppnisstöðuna í breyttu rekstrarumhverfi. Það hefur sýnt sig að styrkirnir hafa skipt máli við að halda einkareknum miðlum samkeppnishæfum. Þeir hafa komið í veg fyrir brottfall í geiranum og jafnvel fjölgað stöðugildum blaða- og fréttamanna. Það er þó mikilvægt að taka umræðuna um stöðu Ríkisútvarpsins í nútímanum. Þarf RÚV að vera á auglýsingamarkaði? Er þörf á því að hafa tvær opinberar útvarpsstöðvar, þ.e. Rás 1 og Rás 2? Það liggur í augum uppi að það er hægt að hagræða betur, bæði í þágu ríkissjóðs og fjölmiðlastéttarinnar. Mögulega getur það verið til hagsbóta að leggja Rás 2 niður. Fjölmargar einkareknar útvarpsstöðvar eru starfræktar í dag og RÚV þarf einungis eina útvarpsstöð til að sinna sínum starfsskyldum og vera til staðar ef þörf er á.

Að lokum vil ég hvetja hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra áfram til dáða í sinni frábærri vinnu við að tryggja samkeppnishæfni sjálfstæðra fjölmiðla.“