Fida Abu Libdeh, varaþingmaður, flutti í dag jómfrúarræðu sína á Alþingi þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi stuðnings við nýsköpun og menntun á landsbyggðinni, sérstaklega á Suðurnesjum. Hún benti á að konur í nýsköpun hafi oft misst af tækifærum vegna ójafnræðis og takmarkaðs aðgengis að fjármagni og ráðgjöfum.
Fida sagði Keili – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, hafi verið lykilstofnun fyrir menntun og nýsköpun á Suðurnesjum. „Ef stuðningur við skólann hverfur, hvaða tækifæri höfum við á Suðurnesjum? Þetta er ekki bara mál landsbyggðarinnar heldur mál kvenna. Þegar hallar á landsbyggðina þá hallar á konur og hallar á konur í nýsköpun,“ sagði hún.
Hún lagði áherslu á nauðsyn þess að háskólanám, starfsnám, endurmenntun og frumkvöðlasetur verði áfram aðgengilegt á Suðurnesjum. Það væri forsenda þess að ungt fólk og frumkvöðlar, sérstaklega konur, fái tækifæri til að vaxa og blómstra á svæðinu.
„Ég skora á hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnina í heild að horfa til landsbyggðarinnar og stöðu kvenna sem lykilatriðis í framtíðarsýn þjóðarinnar og hefja alvöruuppbyggingu þar sem nýsköpun, menntun og jafnrétti mynda órofa heild,“ sagði Fida að lokum.
***
Ræða Fidu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég stíg hér í dag í ræðustól með eldmóð í hjarta og þrá eftir breytingum, ekki aðeins fyrir nýsköpun heldur fyrir alla þá sem hafa staðið utan kerfis. Ég er að tala fyrir landsbyggðina, ég er að tala fyrir nýsköpun, ég er að tala fyrir konur í nýsköpun. Þær hafa oft misst af tækifærum vegna ójafnræðis. Ég flutti til Suðurnesja sem ung kona með drauma og vonir eftir að hafa barist fyrir því að fá tækifæri til að öðlast menntun. Í Keili – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, opnaðist leið mín til nýsköpunar og framtíðar en nú ríkir óvissa í okkar heimabyggð. Keilir sem hefur verið lykilstofnun menntunar og nýsköpunar berst fyrir tilveru sinni. Ef stuðningur við skólann hverfur, hvaða tækifæri höfum við á Suðurnesjum? Þetta er ekki bara mál landsbyggðarinnar heldur mál kvenna. Þegar hallar á landsbyggðina þá hallar á konur og hallar á konur í nýsköpun. Við höfum takmarkað aðgengi að fjármagni, við höfum takmarkað aðgengi að ráðgjöfum. Við höfum líka lítið tengslanet. Við verðum að tryggja að háskólanám, starfsnám, endurmenntun og frumkvöðlasetur verði aðgengileg í okkar heimabyggð á Suðurnesjum þar sem ungt fólk og frumkvöðlar, ekki síst konur, konur af erlendum uppruna, fá tækifæri til að vaxa og blómstra. Það þarf skýra áætlun um menntasetur á Suðurnesjum sem byggir undir framtíðarsýn svæðisins.
Ég skora á hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnina í heild að horfa til landsbyggðarinnar og stöðu kvenna sem lykilatriðis í framtíðarsýn þjóðarinnar og hefja alvöruuppbyggingu þar sem nýsköpun, menntun og jafnrétti mynda órofa heild. — Takk fyrir.“