„Í dag eru vorjafndægur. Nú eru dagur og nótt jafningjar, myrkur og ljós takast á. Á morgun nær dagurinn yfir. Vonin er að brátt heyrist vorfuglar kvaka. Við getum haldið í þá vissu á jafn skrýtnum tímum sem uppi eru núna. Það er líka þekkt að upp úr krísum myndast ný tækifæri, eins og kom í ljós í síðustu krísu. Þjóðarskútan mun rétta við og það þekkjum við öll sem búum á landi elds og ísa og stöndum saman nú sem fyrr,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Í dag greiðum við atkvæði um tvö frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni og taka utan um stóran hóp fólks sem má eiga von á nokkurri röskun á sínu daglega lífi, annars vegar frumvarp sem grípur þá sem lenda í samdrætti fyrirtækja og hins vegar frumvarp vegna tímabundinna greiðslna til fólks sem þarf að sæta sóttkví,“ sagði Halla Signý.
„Ég vil nota tækifærið og þakka velferðarnefnd fyrir góða umfjöllun og mikla vinnu við málið. Það var einhugur um að koma þessu máli sem fyrst í gegn. Með stuðningi ríkisstjórnarinnar náðust fram ítarlegri og öflugri aðgerðir en farið var af stað með. Gera má ráð fyrir því að Covid-19 muni ganga hér yfir á einhverjum mánuðum og eru stjórnvöld að taka málið föstum tökum. Fyrir liggur að einhverjar raskanir verða tímabundið á hefðbundnu lífi borgaranna en stjórnvöld stefna á að lágmarka þær. Samheldni þjóðarinnar skiptir máli og hefur hún sýnt það í verki með því að fara eftir leiðbeiningum Almannavarna og landlæknis sem er gríðarlega mikilvægt. Þannig komumst við standandi niður úr þessu falli. Þegar rykið sest verður hægt að fara af fullum krafti í að efla atvinnulífið. Verður það m.a. gert með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað, eins og með öflugu markaðsátaki í ferðaþjónustu og með því réttum við við einn stærsta atvinnuveg landsins,“ sagði Halla Signý.
Categories
Þegar rykið sest verður farið fullum krafti í að efla atvinnulífið
20/03/2020
Þegar rykið sest verður farið fullum krafti í að efla atvinnulífið