Categories
Fréttir

Þetta er allt að koma!

Deila grein

10/09/2024

Þetta er allt að koma!

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar, kynnti fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2025 í dag. Áhersla er lögð á forgangsröðun og bætta afkomu ríkissjóðs með markvissu aðhaldi í opinberum umsvifum. Unnið er áfram eftir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og betri skilyrði fyrir lækkun vaxta. Heilbrigðis- og velferðarmál lúta ekki aðhaldskröfu og er það í samræmi við þá ætlan ríkisstjórnarinnar að hlúa að viðkvæmum hópum.

„Í morgun kynnti ég sem fjármála- og efnahagsráðherra mitt fyrsta fjárlagafrumvarp sem ég síðan mæli fyrir á fimmtudag á Alþingi Íslendinga. Markmið þess er að stuðla enn frekar að lækkun verðbólgu og í kjölfarið lækkun vaxta. Það er stærsta hagsmunamál samfélagsins okkar.

Við höfum síðustu misserin verið að glíma við verðbólgu sem er langt yfir því sem ásættanlegt getur talist. Seðlabankinn hefur beitt öflugu verkfæri, stýrivöxtum, til að vinna gegn þenslu. Ríkisstjórnin hefur beitt ríkisfjármálunum til að styðja við stefnu Seðlabankans og hefur verðbólga verið á hægfara niðurleið síðasta árið. Sú fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi síðasta vor er með sama markmið: Að stuðla að lækkun verðbólgu.“ – Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Í morgun kynnti ég sem fjármála- og efnahagsráðherra mitt fyrsta fjárlagafrumvarp sem ég síðan mæli fyrir á fimmtudag á…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Þriðjudagur, 10. september 2024

Gert er ráð fyrir að á árinu 2025 batni afkoman talsvert milli ára frá uppfærðri áætlun fyrir yfirstandandi ár, eða um 0,4% af vergri landsframleiðslu (VLF). Það verður tæplega 41 ma.kr halli á heildarafkomu ríkissjóðs, eða sem samsvarar 0,8% af VLF, samanborið við ríflega 57 ma.kr halla á yfirstandandi ári. Það er mikill viðsnúningur frá tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar þegar halli ríkissjóðs náði hámarki við rúmlega 8% af VLF. Áætlað að frumjöfnuður ríkissjóðs 2025, þ.e. afkoma án vaxtagjalda og tekna, verði jákvæður um rúmlega 36 ma.kr., eða 0,7% af VLF, sem er rúmlega 4 ma.kr. bati milli ára.

Heilbrigðs- og velferðarkerfið varið með markvissum ráðstöfunum og forgangsröðun brýnna verkefna

Í fjárlagafrumvarpinu er áhersla lögð á hóflegan raunvöxt útgjalda og sem fyrr segir er forgangsraðað og hagrætt í þágu viðkvæmra hópa. Til viðbótar almennri aðhaldskröfu og öðrum útgjaldalækkunum sem tilgreindar eru í fjármálaáætlun er nú búið að útfæra niður á einstaka gjaldaliði 9 ma.kr. afkomubætandi ráðstafanir sem gert var ráð fyrir í áætluninni. Samanlagt skila þessar breytingar um 29 ma.kr. lækkun útgjalda á næsta ári samanborið við fyrri áætlanir. Verður þetta að hluta nýtt til forgangsröðunar nýrra og brýnna verkefna.

Velferðarkerfi verða styrkt:

  • Nýtt örorkukerfi sem tekur gildi í september á næsta ári mun bæta kjör örorkulífeyrisþega verulega.
  • Kjör ellilífeyrisþega batna en almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar um 46% í ársbyrjun 2025. Það þýðir 138 þús.kr. kjarabót á ári.
  • Aukinn þungi verður settur á inngildingu flóttafólks og innflytjenda í íslenskt samfélag og fjárframlög til styttingar málsmeðferðartíma við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd verða aukin.

Samgöngur bættar:

  • Nýframkvæmdir og viðhald á vegakerfinu verða áfram í forgrunni
  • Framlög til uppbyggingar samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verða aukin um 6,4 ma.kr.

Heilbrigðismál áfram í forgangi:

  • Alls aukast framlög til málaflokksins milli ára um 10,4 ma.kr. á föstu verðlagi eða sem nemur um 3%.
  • Fjárveitingar til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga verða auknar vegna fjölgunar og öldrunar þjóðarinnar
  • Aukið fjármagn verður sett í rekstur nýrra hjúkrunarrýma.
  • Framlög vegna lyfja og hjálpartækja aukast um 1,3 ma.kr.
  • Áframhaldandi kraftur verður í byggingu nýs Landsspítala en á árinu 2025 verður 18,4 ma.kr. varið til verkefnisins.

Fjárfestingar og fjármagnstilfærslur:

  • Hafist verður handa við byggingu nýs fangelsis í stað Litla-Hrauns.
  • Fyrstu skrefin tekin í átt að byggingu Þjóðarhallar.

Rannsóknir og þróun:

  • Áframhaldandi stuðningur við fyrirtæki vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar.

Stuðningur við ungt fólk sem verðbólga og háir vextir bitna einkum á

Brýnt er að horfast í augu við að helsta meðalið við verðbólgu, þ.e. háir stýrivextir Seðlabankans, hefur mest áhrif á skuldsetta heimili. Vaxtabyrði ungs fólks hefur aukist hraðar en annarra aldurshópa.

Aðgerðir stjórnvalda til að styðja við markmið langtímakjarasamninga eru í forgangi og styðja sérstaklega við barnafólk, leigjendur og skuldsetta íbúðaeigendur á tímabili samningsins.

Sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán var greiddur út á liðnu ári, grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og eignaskerðingarmörk í húsnæðisbótakerfinu voru hækkuð umtalsvert og stuðningur við barnafjölskyldur stórefldur. Umfang aðgerðanna nemur um 14 ma.kr. á árinu 2025. Í tengslum við gerð langtímakjarasamninga ákvað ríkisstjórnin að styðja við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum og er fjármögnun þeirra tryggð.

Ný og aukin verkefni í fjárlagafrumvarpi 2025

Allt efni fjárlagafrumvarpsins er aðgengilegt á fjárlög.is.