Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýnir þunna dagskrá þingsins og frestanir á lykilfrumvörpum: „Þetta er ekki merki um öfluga verkstjórn.“
Ingibjörg kallaði eftir skýrum svörum um stöðu stjórnarmála á Alþingi og sagði verkstjórn ríkisstjórnarinnar ekki skila sér inn í þingið. Benti hún á að dagskrá þingfunda undanfarna daga og vikur hefði verið „ansi þunn“ og að sérstakar umræður og þingmannamál væru notuð til að fylla upp í dagskrá.
Eru stjórnarmálin öll föst inni í stjórnarflokkunum?
„Það er orðið ansi áberandi að verkstjórnin, ríkisstjórnin, er ekki að ná að koma stjórnarmálum til þingsins,“ sagði Ingibjörg. „Síðasta vika var skýrt dæmi um það. Þar er verið að fylla upp í dagskrá þingfunda með sérstökum umræðum og þingmannamálum. Það er alveg augljóst að þetta er ekki merki um öfluga verkstjórn.“
Áhyggjur af áhrifum á menntakerfið
Ingibjörg sagði seinaganginn hafa sýnileg áhrif á menntakerfið. „Það er verið að fresta máli sem tengist fríum námsgögnum, máli sem þegar var tilbúið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd síðastliðið vor,“ sagði hún og bætti við að frumvarp um skólaþjónustu kæmi ekki inn á þing fyrr en eftir ár.
„Það má kannski spyrja hvort stórátakinu í menntamálum hafi hreinlega verið slegið á frest,“ sagði Ingibjörg og lagði áherslu á að ekki mætti draga mikilvæg þjóðþrifamál á langinn.
Hvetur ríkisstjórn til „góðra verka“
Ingibjörg hvatti ríkisstjórnina til að leysa tafir og koma fleiri málum á dagskrá. „Ég vil hvetja hæstv. ríkisstjórn til góðra verka og bind vonir við að hlutirnir leysist hjá þeim svo við förum að sjá fleiri stjórnarmál hér á dagskrá þingfunda.“