Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega í ræðu á Alþingi áform heilbrigðisráðherra um að leggja niður Janus endurhæfingu – eitt fárra úrræða fyrir ungt fólk með geðrænar áskoranir. Í ræðu sinni lýsti hún því yfir að með slíkri ákvörðun væri verið að skilja einn viðkvæmasta hóp samfélagsins eftir án raunverulegra úrræða.
„Ábyrgðin liggur ekki hjá VIRK. Hún liggur ekki hjá geðteymum. Hún liggur hjá heilbrigðisráðherra,“ sagði Ingibjörg og benti á að engin sambærileg þjónusta standi til boða ef Janusi verði lokað. Hún minnti jafnframt á að síðasti ráðherra hafi snúið við sömu ákvörðun vegna skorts á úrræðum – staða sem hún segir að haldist óbreytt.
Ingibjörg gagnrýndi einnig verklag ráðherrans, en velferðarnefnd Alþingis varð að senda sex formlegar beiðnir áður en ráðherra mætti á fund. „Það var gott að fá hana loksins á fund og hún sýndi góðan vilja – en mörgum mikilvægustu spurningum hefur enn ekki verið svarað.“
Ingibjörg lagði áherslu á að ríkisstjórnin, undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, þyrfti að sýna í verki hvernig hún hyggist forgangsraða í geðheilbrigðismálum. „Það væri ekki aðeins rétt, heldur líka rökrétt og mannúðlegt að framlengja starfsemi Janusar – rétt eins og gert var síðast,“ sagði hún að lokum.