Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, gagnrýnir harðlega þróunina sem hann segir grafa undan sjálfstæði Alþingis og lýðræðislegum ferlum. Í störfum þingsins á Alþingi varaði Sigurður Ingi við því að framkvæmdarvaldið væri farið að hafa of mikil áhrif á störf þingsins og að þróunin færi í ranga átt.
„Staðan á auðvitað að vera þannig að framkvæmdarvaldið kemur með mál til þingsins og afhendir þinginu og þingið tekur við þeim til þess að vinna vinnuna,“ sagði Sigurður Ingi. „Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að þingið hefur verið að biðja ráðuneytin um að vinna vinnu […] Það getur verið varasamt að fara of langt.“
Fjármálaáætlun illa unnin og skortur á gögnum
Eitt af þeim málum sem Sigurður Ingi gagnrýndi sérstaklega er hvernig fjármálaáætlun var lögð fram. Þar vantaði nauðsynleg fylgigögn sem skylt er að leggja fram samkvæmt lögum.
„Fjármálaáætlun kom inn í þingið illa unnin, þeim lögbundnu gögnum sem áttu að fylgja var ekki skilað til þingsins og þinginu sagt að það fengi þau bara einhvern tíma seinna,“ sagði hann og bætti við að slíkt sýndi skort á virðingu fyrir Alþingi.
Lýðræðið látið mæta afgangi í stjórnarskipunum
Sigurður Ingi gagnrýndi einnig hvernig gengið hefur verið fram í skipan stjórna ríkisfyrirtækja, þar sem hefðbundin samráð við þingflokka hafi verið sniðgengin:
„Það er bara einn maður sem ákveður hvernig þær stjórnir eigi að vera. Áður fyrr var leitað til flokkanna á þingi um tilnefningar til þess að lýðræðið hefði einhvern tilgang.“
Lögbrot vegna vanrækslu á skipan stjórnar
Sigurður Ingi telur það sérstaklega alvarlegt þegar ráðherra bregðast lögboðnum skyldum. Hann bendir á að félagsmálaráðherra hafi brotið jafnréttislög – og nú einnig lög um skipan stjórnar Tryggingastofnunar með því að láta það vera að skipa stjórn þar til frumvarp verði lagt fram síðar.
„Það sem verra er, frú forseti, að í samtali í óundirbúnum fyrirspurnatíma á mánudaginn […] tók hæstv. forsætisráðherra undir að það væri eðlilegt að ráðherra skipaði ekki stjórnina vegna þess að fyrirhugað væri að mál kæmi til þingsins, eins og þingið sé stimpilpúði.“
Kallar eftir viðbrögðum umboðsmanns Alþingis
Að lokum hvatti Sigurður Ingi til þess að mál sem þetta yrði tekið til skoðunar af Umboðsmanni Alþingis.
„Þessu verðum við að breyta og ég held að umboðsmaður Alþingis hljóti að skoða nákvæmlega þetta tiltekna mál.“