Categories
Fréttir

Þinglok

Deila grein

13/06/2018

Þinglok

Eitt að okkar kosningaloforðum fyrir Alþingiskosningarnar sl. haust var að húsnæðisliðurinn yrði tekinn út úr vísitölunni. Jafnframt að samstarf yrði aukið á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt er að stuðla að lækkun vaxta til að mynda við kjarasamningsgerð.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnnar segir að fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvístölunnar.
Þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram þingsályktunartillögu í lok janúar um upptöku samræmdar vísitölu neysluverðs. Einkar ánægjulegt var að sjá að allur þingheimur samþykkti tillöguna okkar. Flutningsmenn voru Willum Þór Þórsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.
Þá kom í síðustu viku út skýrsla peningastefnunefndar þar sem lagt er til að fjarlægja húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs því hann hafi alvarleg áhrif á húsnæðismarkaðinn. Gott er að finna faglegan rökstuðning sérfræðinga með þeirri tillögu.
Verðbólga hér á landi hefur verið há. Verðbólgumæling, þar sem stuðst er við vísitölu neysluverðs, sýnir jafnan hærri verðbólgu en ef stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs.
Framsóknarflokkurinn hefur barist fyrir þessu máli í mörg ár og því er ánægjulegt að sjá að  hagfræðingar og verkalýðshreyfingin séu komin á vagninn með okkur. Við höfðum undirbúið þetta mál, talað um fyrir því, unnið að því og þess vegna fengum við þingsályktunartillöguna afgreidda í 8.maí sl. Enginn greiddi atkvæði á móti.
Við erum að vinna samkvæmt stefnu Framsóknar, við erum að vinna samkvæmt stjórnarsáttmálanum og við erum að vinna samkvæmt þeirri þingályktun sem við lögðum fram með Willum Þór Þórsson í broddi fylkingar og þingheimur samþykkti.
Af öðrum málum sem bar hæst á Alþingi má nefna að ein metnaðarfyllsta Byggðaáætlun fyrir næstu árin var samþykkt, sem felur í sér raunhæfar aðgerðir til styrkingar byggða. Byggðaáætlunin hafði verið í undirbúningi sl. tvö ár þar sem stefna og kosningaloforð Framsóknarflokksins komu skýrt fram.
Í stjórnarsáttmálanum má sjá fjöldamörg mál sem endurspegla markmið, stefnu og gildi Framsóknarflokksins. Á næsta þingvetri munum við sjá mikilvæg mál koma fram sem unnið er af fullum krafti. Uppbyggingin grunnstoða samfélagsins er hafin eins og við lofuðum fyrir kosningar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.