Categories
Fréttir

Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt

Deila grein

26/03/2025

Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt sem stefnt er að koma á fyrir lok árs 2026. Tillagan felur í sér að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samráði við atvinnuvegaráðherra, leiði samstarf stjórnvalda, bænda, atvinnulífsins, almennings og stofnunarinnar Land og skógar um aukna kolefnisbindingu með þátttöku almennings.

Gríðarleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga

Markmið átaksins er að stuðla að landgræðslu og skógrækt til að efla kolefnisbindingu, draga úr jarðvegsrofi og bæta landgæði á Íslandi. Verkefnið mun taka mið af fyrri vel heppnuðum átaksverkefnum á borð við „Bændur græða landið“ og „Landgræðsluskóga“, sem hafa verið í gangi síðan 1990.

Í greinargerð kemur fram að þátttaka almennings yrði tvíþætt; annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu og skógrækt og hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sem fyrirtæki myndu bjóða upp á. Tillagan styður við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og fellur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Þórarinn Ingi bendir á að jarðvegur sé ein mikilvægasta auðlind landsins, undirstaða matvælaframleiðslu og lykilatriði í baráttunni við loftslagsbreytingar. Ísland hafi einstök tækifæri til að efla kolefnisbindingu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með landgræðslu og skógrækt.

Þetta er í sjötta sinn sem þingsályktunartillagan er lögð fram og umsagnir á fyrri þingum hafa almennt verið jákvæðar.

Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi: