Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ítrekaði áhyggjur sínar af framtíð hjúkrunarrýma á Alþingi og krafði núverandi ríkisstjórn um skýr svör um hvort áframhaldandi uppbygging yrði tryggð.
Hún minnti á að fyrri ríkisstjórn hafi sett af stað framkvæmdaáætlun til ársins 2028 sem miðar að uppbyggingu hjúkrunarrýma um land allt. Ingibjörg sagði að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur stæði frammi fyrir einfaldri spurningu: „Ætlar hún að fylgja þessari vinnu eftir?“
Samkvæmt áætlunum eiga um 250 ný hjúkrunarrými að opna á þessu ári. Ingibjörg nefndi sérstaklega að hjúkrunarrýmin á Boðaþingi og Nesvöllum ættu að opna í vor og að samningar um leigu hjúkrunarrýma í Urðarhvarfi væru þegar komnir á rekspöl. Hins vegar lagði hún áherslu á að „orð á blaði nægja ekki“ heldur þurfi skýran pólitískan stuðning og fjármagn.
Ingibjörg gagnrýndi einnig að enn væri ekki komin lausn á framtíð hjúkrunarrýma í Seljahlíð, sem fyrri ríkisstjórn bjargaði í fyrra þegar Reykjavíkurborg ætlaði að loka heimilinu. Hún ítrekaði að með flokk ráðherra í meirihluta í borginni ætti að vera auðvelt að tryggja framtíð hjúkrunarrýmanna án tafar.
Að lokum spurði Ingibjörg hvort núverandi ríkisstjórn ætlaði að fylgja áætlunum fyrri ríkisstjórnar eftir eða hvort ætlað væri að draga úr þeirri uppbyggingu sem þegar hafi verið skipulögð. „Hvernig ætla ný stjórnvöld að tryggja raunhæfa og tímanlega uppbyggingu hjúkrunarrýma svo við lendum ekki aftur í þeirri stöðu að framkvæmdaáætlanir dugi ekki til að mæta vaxandi þörf?“ spurði hún og kallaði eftir skýrum svörum og ákveðnum aðgerðum.