Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, fjallaði í störfum þingsins um innleiðingu orkulöggjafar Evrópusambandsins og mögulegar afleiðingar hennar fyrir orkuöryggi heimila og atvinnulífs. Hún sagði lykilhagsmuni Íslendinga í húfi og kallaði eftir skýrri pólitískri forystu í málinu.
Halla Hrund vísaði meðal annars til umræðu á haustfundi Landsvirkjunar þar sem spurt hafi verið hvort fyrirtækinu sé heimilt að halda eftir orku fyrir heimili ef aðrir aðilar, til dæmis aðilar í rafmyntagröftum, séu tilbúnir að greiða hærra verð.
„Í huga okkar flestra er svarið við þessari spurningu vonandi já,“ sagði hún, en benti á að ekki væri skýrt kveðið á um slíkt í lögum eftir innleiðingu orkupakka Evrópusambandsins.
Halla Hrund minnti á að sögulega hefði orkumarkaður á Íslandi verið tvískiptur; annars vegar heimili og fyrirtæki landsins og hins vegar stóriðja. Sú nálgun hafi tryggt öfluga umgjörð raforkumála og fyrirsjáanleika fyrir bæði almenning og stórnotendur. Að hennar mati grefur innleiðing orkupakka, með áherslu á „fullkomið markaðsfyrirkomulag“, undan þessari stöðu.
Halla Hrund sagði að óvissa um framtíarfyrirkomulag orkumarkaðar snerti bæði heimili og iðnað sem reiði sig á langtímasamninga og stöðugleika, en ekki sveiflukenndan orkumarkað. „Það er lykilhagsmunamál, bæði fyrir almenning í landinu og fyrir samkeppnishæfni iðnaðar,“ sagði hún.
Hún gagnrýndi einnig ábendingar Samkeppniseftirlitsins um að stóriðja geti selt ónýtta orku aftur inn á kerfið. Að óbreyttu gæti slík breyting, að hennar mati, hvatt fyrirtæki til að draga úr framleiðslu og verða fremur raforkusalar á samningstíma. Hún spurði hvort það væri raunverulega stefna sem stjórnmálamenn vildu sjá, sérstaklega í ljósi hagvaxtarspár Seðlabanka Íslands sem kynnt var í dag og gerir aðeins ráð fyrir 0,9% hagvexti á árinu.
„Hér verður pólitík að skilja hvað það þýðir, hvað slík breyting þýðir ef hún er ekki hugsuð vandlega. Hún getur hvatt til þess að fyrirtæki dragi úr framleiðslu en gerist heldur raforkusalar á samningstíma. Er slíkt ráðlegt? Er það eitthvað sem við viljum sjá raungerast? Er það ráðlegt í samhengi við hagvaxtarspá Seðlabankans sem birt var í dag? Þar hefur hagvaxtarspáin fallið niður í 0,9% á þessu ári.“
„Það þarf skýra pólitíska forystu um það hvernig við innleiðum orkumarkaðslöggjöf Evrópusambandsins,“ sagði Halla Hrund að lokum og tók fram að um væri að ræða grunnstoðir íslensks efnahagslífs og orkuöryggi almennings.
