Categories
Fréttir

„Þurfum við stöðugleikareglu eða sveigjanleika í innviðamálum?“

Deila grein

19/03/2025

„Þurfum við stöðugleikareglu eða sveigjanleika í innviðamálum?“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins tillögu ríkisstjórnarinnar um nýja stöðugleikareglu og aðrar breytingar á lögum um opinber fjármál. Tillagan miðar að því að tryggja stöðugleika í ríkisrekstri, en Þórarinn Ingi telur mikilvægt að skýra betur hvaða áhrif reglan muni hafa áður en gengið sé til svo viðamikilla breytinga.

„Það vekur athygli að svokallaðir grundvallarútgjaldaþættir eru undanskildir stöðugleikareglunni. Það opnar fyrir mjög víða túlkun á hugtakinu fjárfestingar,“ sagði Þórarinn Ingi og benti á að slík óskýrleiki gæti haft neikvæð áhrif á fjármálastefnu ríkisins.

Hann velti jafnframt upp þeirri spurningu hvort of langt sé gengið með því að lögfesta ítarlegar reglur um hagstjórn í stað þess að treysta ríkisstjórnum til að fylgja settum grunnreglum.

Þá lagði Þórarinn Ingi áherslu á mikilvægi þess að horfa til innviðaskuldar þjóðarinnar. Hann nefndi Þýskaland sem dæmi, þar sem nýlega var ákveðið að auka útgjöld til innviða og varnarmála. Þar væri ekki rætt hvort fylgja ætti stöðugleikareglum, heldur hvernig hægt sé að víkja þeim í þágu nauðsynlegrar uppbyggingar.

***

Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

„Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu um svokallaða stöðugleikareglu. Þá eru nokkrar aðrar breytingar fyrirhugaðar á lögum um opinber fjármál. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að greina áhrif og nytsemi laga um opinber fjármál áður en farið er í grundvallarbreytingar á lögum um afkomumarkmið og rekstur hins opinbera. Þá vekur athygli að grundvallarútgjaldaþættir eru undanskildir stöðugleikareglunni. Þannig má túlka hugtakið fjárfestingar mjög vítt. Það getur átt við bæði hefðbundna innviðauppbyggingu og óljósa þætti eins og fjárfestingar í mannauði eða öðrum ófjárhagslegum þáttum. Þá er ágætt að hafa í huga meiri háttar innviðaskuld þjóðarinnar. Ef tekist verður almennilega á við innviðaskuldina hlýtur það að hafa áhrif á aðrar forsendur fjármálastefnu og hagstjórnar. Þá er spurning hvort við séum að ganga of langt við að lögfesta hvernig staðið er að hagstjórn. Getum við ekki treyst hverri ríkisstjórn til að fylgja grunnreglum laga um opinber fjármál, svo sem varfærni, festu og sjálfbærni?

Frú forseti. Að lokum: Í fyrradag tilkynnti Þýskaland meiri háttar aukningu útgjalda til innviða og varnarmála. Þar er ekki verið að ræða stöðugleikareglu heldur hvernig megi víkja frá henni í ljósi nauðsynlegrar uppbyggingar innviða, auk varna landsins.“