Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hefur mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða á Alþingi. Tillagan felur í sér að atvinnuvegaráðherra verði falið að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2026. Markmiðið er að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.
Skilgreining á neyðarbirgðum
Nauðsynlegt er að skýra hvað átt er við með neyðarbirgðum, til hve langs tíma sé horft og hvaða aðstæðna. Mismunandi vá sem steðjað getur að getur kallað á mismunandi viðbúnað. Bæði þarf að horfa til birgða af vörum sem tilbúnar eru til neyslu auk aðfanga eins og orku, eldsneytis, áburðar, fóðurs og umbúða. Þá er trygg greiðslumiðlun einnig mikilvæg forsenda þess að útvega megi lykilaðföng eins og fóður, lyf og umbúðir.
Reynsla af áföllum og framtíðarsýn
„Mikilvægt er, þegar litið er til framtíðar, að horfa til reynslu af þeim áföllum sem á okkur hafa dunið á undanförnum árum. Ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geta gert það að verkum að flutningsleiðir til landsins stöðvist. Við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma,“ sagði Þórarinn Ingi. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem flutt var á Alþingi í byrjun október árið 2022 er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur og leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma.
Inngrip ríkisvaldsins og geymslugjald
Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Fyrirkomulagið getur falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkt fyrirkomulag þekkist í öðrum löndum til að tryggja lágmarksbirgðahald og jafnvægi á mörkuðum. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf ólíkum leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða.
Uppbygging kornræktar á Íslandi
Skoða þarf einnig sérstaklega uppbyggingu kornræktar og geymslu á kornbirgðum hér á landi. Byggja þarf upp viðamikil kornsamlög þar sem fjárfest yrði í innviðum vegna kornræktar til manneldis og skepnufóðurs. Talsverðir fjármunir verða settir í að auka kornrækt á Íslandi á næstu árum, en tveir milljarðar króna eiga að fara í kynbætur á plöntum, þróun á jarðbótum og fjárfestingu í innviðum. Það er mikilvægt fyrsta skref en gera þarf meira. Flutningsmenn telja að skoða þyrfti svipað fyrirkomulag og með hin hefðbundnu matvæli hvað varðar geymslugjald til þess að tryggja að umframbirgðir yrðu til staðar á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi væri hægt að festa kornrækt í sessi sem búgrein hér á landi, bæta fæðuöryggi þjóðarinnar og efla innlenda framleiðslu til framtíðar.