Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gerði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi að umtalsefni ákvörðun Evrópusambandsins um að setja verndartolla á járnblendi, meðal annars frá Íslandi, og varpaði fram hvort „þjóðir geti nýtt þennan varnagla í EES-samningnum og tekið til varna þegar áhrif innflutnings á innlenda framleiðslu þeirra eru óþarflega mikil“.
Hann gagnrýndi viðbrögð íslenskra stjórnvalda og spurði hvort ríkisstjórnin hefði nokkurn tímann verið með varaplan til að verja hagsmuni landsins. Ríkisstjórnin hefði virst gera sér vonir um að hægt yrði að snúa Evrópusambandinu af þeirri leið að setja verndartolla á járnblendi, en sú von hefði brugðist.
„Mig langar að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra, m.a. í ljósi þess sem gerðist hér fyrir nokkrum dögum er Evrópusambandið ákvað að setja verndartolla á járnblendi. Ríkisstjórnin virðist hafa haft þá trú að þau myndu geta snúið Evrópusambandsríkjunum. Ég spyr því þegar í ljós kemur að það tókst ekki: Var ekkert plan B? Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við núna?“
Sigurður Ingi rifjaði jafnframt upp að Ísland hefði gert sérstakan tollasamning við ESB um matvæli fyrir nokkrum árum, samning sem byggðist á forsendum sem hefðu gjörbreyst. Bretland hefði gengið úr Evrópusambandinu og tekið með sér sinn hluta samningsins, en ESB hafi ekki verið tilbúið til að endurskoða samninginn þrátt fyrir breyttar aðstæður.
Í ljósi þess, sagði hann, væri eðlilegt að spyrja hvort ekki væri tímabært að endurmeta stöðuna og nýta þann varnagli sem felist í EES-samningnum.
„Við höfum ekki getað nýtt okkur þær útflutningsheimildir sem fólust í þeim tollasamningi. Bretar gengu úr Evrópusambandinu og tóku með sér þann hluta. Evrópusambandið hefur hins vegar ekki verið tilbúið til að aðlaga samninginn að þessum breyttu forsendum. Það er líka ljóst að við getum augljóslega notað þau rök sem Evrópusambandið notar, að tollfrjáls innflutningur á matvælum frá Evrópusambandinu hafi umtalsverð áhrif á innlenda matvælaframleiðslu. Við þekkjum lífskjör sauðfjárbænda og alls konar aðra hluti,“ sagði hann.
Að mati Sigurðar Inga eru áhrif innflutnings á íslenska framleiðslu orðin slíkt að ekki sé lengur unnt að horfa fram hjá þeim.
Vill nota sama lagagrundvöll
Sigurður Ingi lagði áherslu á að Framsókn væri ekki að kalla eftir hefndaraðgerðum gagnvart ESB heldur eðlilegri hagsmunagæslu Íslands á sömu forsendum og Evrópusambandið gengi sjálft út frá.
„Nú var það ekki tillaga mín að við værum að svara í sömu mynt heldur værum við einfaldlega að nota sömu rök og Evrópusambandið notar, að það sé fullgilt og EES-samningurinn standi eftir sem áður og það sé bara eðlilegt að þjóðir geti nýtt þennan varnagla í EES-samningnum og tekið til varna þegar áhrif innflutnings á innlenda framleiðslu þeirra eru óþarflega mikil.“
Hann gagnrýndi jafnframt svör fjármálaráðherra og sagðist ekki sannfærður um að ráðherra hefði haft raunverulegt varaplan þegar fyrirséð var að aðgerðir ESB myndu ná fram að ganga.
„Við í Framsókn hyggjumst nú engu að síður, þó að viðbrögð ráðherrans séu frekar neikvæð og plan B hafi bara verið að reyna að fresta ákvörðun Evrópusambandsins nógu lengi – það plan B hljómar ekki mjög sannfærandi – leggja fram þingsályktunartillögu um þetta efni, að hækka tolla,“ sagði Sigurður Ingi.
Vill hækka tolla og lækka VSK til að verja heimilin
Sigurður Ingi sagði að annars vegar þyrfti að verja innlenda matvælaframleiðslu með hærri tollum, en hins vegar að vernda heimilin fyrir mögulegri verðhækkun með því að lækka tímabundið virðisaukaskatt á matvæli.
„Samhliða því, vegna þess að ég veit að fjármálaráðherra vill ná niður verðbólgunni, gæti auðvitað verið skynsamlegt að boða á sama tíma tímabundna lækkun á virðisaukaskatti á matvælum til að koma til móts við þá hækkun sem hugsanlega gæti orðið vegna hækkunar á tollum og þannig slá tvær flugur í einu höggi, koma til móts við tekjulág heimili og koma með alvörusleggju á verðbólguna. Bara gera eins og Svíar gerðu, tímabundna lækkun á virðisaukaskatti,“ sagði hann.
