Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu verkefnið „Tryggð byggð“ á fundi í Hofi, Akureyri á þriðjudaginn, en það snýst um að kynna möguleikana sem nú eru fyrir hendi til að endurnýja og byggja nýtt húsnæði á landsbyggðinni með stuðningi ríkisins og sveitarfélaga á hverjum stað.
„Markmiðið með „Tryggð byggð“ er að stuðla að markvissri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni,“ segir Ásmundur Einar.
„Tryggð byggð“ felur í sér aðgerðir eins og sérstök landsbyggðarlán, hærri stofnframlög, þátttaka af hálfu opinbera Leigufélagsins Bríetar og stuðningur á hönnunar- og undirbúningsstigi. Markmiðið er að tryggja að fólk geti flutt út á land í leit að atvinnu, eða af öðrum ástæðum, og fengið húsnæði við hæfi.
Á síðustu tveimur árum hafa farið af stað byggingar á yfir 400 íbúðum á landsbyggðinni og heildarfjárfesting þessara verkefna er tæpir 10 milljarðar.
„Allt eru þetta verkefni sem hafa farið af stað vegna nýrra aðgerða undir merkjum Tryggð byggð. Ég hvet ykkur til að kíkja á nýjan vef verkefnisins, www.tryggdbyggd.is, þar sem verkefnin sem eru í gangi hverju sinni verða kynnt. Við erum rétt að byrja,“ segir Ásmundur Einar.