Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um breytingu á skipulagslögum (nr. 123/2010) og ákvæðum þeirra sem snúa að uppbyggingu innviða.
Breytingar í frumvarpinu eru gerðar í samræmi við tillögur átakshóps sem skipaður var eftir fárviðrið sem gekk yfir landið í desember 2019. Breytingarnar styðja við þau áform stjórnvalda að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Slíkar breytingar eru m.a. í takt við áherslu ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu flutningskerfis raforku og græna orkuframleiðslu, sér í lagi í tengslum við orkuskipti.
Heimild til skipulagsákvörðunar þvert á sveitarfélagamörk
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagslögum í tengslum við uppbyggingu flutningskerfis raforku, þegar um er að ræða framkvæmdir í flutningskerfi raforku sem ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Lagt er til að lögfest verði heimild til að taka sameiginlega skipulagsákvörðun sem nái til einnar framkvæmdar í flutningskerfi raforku sem er áformuð í tveimur eða fleiri sveitarfélögum, þvert á sveitarfélagamörk.
Slík sameiginleg skipulagsákvörðun verði í höndum sérstakrar raflínunefndar sem skipuð verði fulltrúum allra sveitarfélaga sem viðkomandi skipulagsákvörðun nái til. Í slíkri nefnd muni einnig eiga sæti fulltrúi Skipulagsstofnunar til að tryggja fagþekkingu, bæði gagnvart skipulagsgerð og mati á umhverfisáhrifum.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdaraðili hafi frumkvæði að því að ráðherra skipi slíka nefnd. Beiðni framkvæmdaraðila skal koma fram á undirbúningsstigi framkvæmdar og áður en formlegt ferli samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana er hafið.
„Framkvæmdir af þessu tagi geta við núgildandi löggjöf kallað á breytingar á aðalskipulagi og útgáfu framkvæmdaleyfis frá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ef svæðisskipulag er til staðar kann einnig að þurfa að gera breytingar á því með aðkomu allra þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að því. Þannig er aukin skilvirkni í því að heimila töku einnar sameiginlegrar skipulagsákvörðunar fyrir framkvæmd af þessu tagi,“ sagði Sigurður Ingi þegar hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi.
Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 22. september 2022.
Forsíðumynd: Sigtryggur
Mynd: Stjórnarráðið