Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um breytingu á lögum um ættleiðingar.
Í breytingunni felst að einstaklingur sem hefur verið í sambúð eða hjúskap við annað foreldrið en síðar slitið samvistum við það, geti óskað eftir að ættleiða barnið án þess að lagatengsl rofni við hitt foreldrið. Einnig er lögð til heimild til að ættleiða barn eða kjörbarn einstaklings sem hefur fallið frá.
Frumvarpið var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi og er nú endurflutt með breytingum í samræmi við athugasemdir sem bárust.
Hér er um að ræða að sá sem ættleiðir kemur í stað annars foreldris, þ.e. að barn hafi eftir ættleiðingu lagatengsl við tvo aðila.
Markmið frumvarpsins er að tryggja að umsækjandi sem alið hefur upp barn geti fengið ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð eða hjónabandi við foreldrið.
Eins og staðan er nú getur einstaklingur sem alið hefur upp barn í fjölda ára ekki sótt um að ættleiða það barn ef viðkomandi hefur slitið sambúð eða hjónabandi við hitt foreldrið. Mögulega eiga þessir einstaklingar önnur börn saman og sá sem óskar eftir ættleiðingunni vill tryggja að barn sem hefur alist upp hjá viðkomandi hafi sömu réttindi og önnur börn hans.
Samkvæmt núgildandi lögum getur einstaklingur sem óskar eftir að ættleiða barn sem alist hefur upp hjá umsækjanda sótt um ættleiðingu sem einstaklingur, en það hefur þau réttaráhrif að lagatengsl barns við báða blóðforeldra rofnar.