Framsókn í Reykjavík hefur á aukakjördæmaþingi samþykkt að viðhafa tvöfalt kjördæmaþing við val á efstu stæum framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí. Samkvæmt ákvörðun þingsins fer tvöfalda kjördæmaþingið fram annaðhvort 31. janúar eða 7. febrúar og verður þar kosið um fjögur efstu sæti framboðslistans.
Reglur um tvöfalt kjördæmaþing vegna borgarstjórnarkosninga kveða á um að atkvæðisrétt hafi flokksmenn sem eiga lögheimili í Reykjavík og eru í framsóknarfélögum í kjördæmunum. Á þinginu verður kosið um hvert sæti sérstaklega. Fyrst er kosið milli þeirra sem hafa gefið kost á sér í 1. sæti. Fái enginn frambjóðandi einfaldan meirihluta gildra atkvæða skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Sá telst kjörinn sem hlýtur fleiri atkvæði í síðari umferðinni. Þá er kosið um 2. sætið og svo framvegis þar til kosið hefur verið í 4 efstu sætin. Eftir að úrslit um hvert sæti liggja fyrir geta frambjóðendur sem ekki náðu kjöri í viðkomandi sæti gefið kost á sér í næsta sæti listans.
Þá gildir að ekki skulu vera fleiri en þrír af sama kyni í 5 efstu sætum framboðslistans. Að öðru leyti er það í höndum kjörstjórnar að gera tillögu um framboðslistann í heild og leggja hana fyrir stjórn kjördæmasambandsins, sem síðan leggur listann fyrir aukakjördæmaþing til samþykktar.
