,,Hæstv. forseti. Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn. Það er augljóst að alla ástríðu skortir í sambandið þrátt fyrir nokkur sameiginleg áhugamál eins og aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og einkavæðingu bankakerfisins án þess að fyrir liggi skýr eigandastefna, áfengi í matvöruverslanir og nú síðast fréttir af fundum íslenskra embættismanna við fulltrúa vogunarsjóða sem ekki tóku þátt í útboði síðastliðið haust.
Til að toppa ósköpin hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram frumvarp sem miðar að því að lögleiða gengistryggð lán til neytenda sem hafa ekki varnir gegn þeirri gengisáhættu sem fylgir slíkum lánum. Í frumvarpinu er áskilnaður um að aðeins þeir neytendur geti tekið gengistryggð lán sem hafi nægar tekjur til að ráða við verulegar gengis- og vaxtabreytingar sem fylgt geta slíkum lánum. Þau munu því aðeins standa efnafólki til boðs. Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, varar við gengistryggðum lánum á bloggsíðu sinni og mig langar til að lesa stuttan kafla úr þeirri grein, með leyfi forseta:
„Seðlabankinn notar stýrivaxtatækið til að draga úr þenslu í hagkerfinu. Þegar stýrivextir hækka verður dýrara að taka lán og fólk því líklegra til að bíða með framkvæmdir eða fara hægar í fjárfestingar. Verði frumvarp fjármálaráðherrans að lögum munu þeir tekjuháu geta skotið sér undan stýrivaxtatækinu með því að taka gengistryggð lán á lægri vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivexti Seðlabankans. Þeir munu því geta haldið sinni „þenslu“ óbreyttri, en í staðinn verða allir hinir í samfélaginu að þola þeim mun meira aðhald af hálfu peningastefnunnar.”
Hæstv. forseti. Heilbrigðiskerfið fyrir forréttindahópa. Vextir fyrir forréttindahópa. Vegatollar fyrir þá sem hafa efni á þeim, hinir geta farið lengri leiðina. Einkavinavæðing bankakerfisins. Allt í boði hægri stjórnarinnar. Ég hef verulegar áhyggjur af þeirri vegferð sem við erum á og þið, kæru landsmenn, ættuð að hafa það líka.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 7. mars 2017.
Categories
Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn
08/03/2017
Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn