Categories
Fréttir

Umhverfismál til umræðu í þinginu

Deila grein

29/01/2016

Umhverfismál til umræðu í þinginu

Sigrún Magnúsdóttir 006Óhætt er að segja að umhverfismálin hafi verið áberandi í þinginu þessa vikuna. Þingmenn allra flokka viðhöfðu málefnalega og yfirvegaða umræðu. Umhverfismál hafa víðtæka tengingu og koma við hjá nær öllum atvinnugreinum og taka yfir vítt svið. Það er ánægjulegt að mikil vakning hefur orðið í samfélaginu á að finna raunhæfar lausnir til að vinna gegn loftslagsbreytingum og sporna gegn hverskonar sóun, eins og felast í sóknaráætlun. Mikil tækifæri felast í betri nýtingu, bættri umgengni og orkustjórnun sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu auðlinda og bættri samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.
Vikan byrjaði á því að Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði grein fyrir starfshópi sem er ætlað að koma með tillögur um hvernig draga megi úr notkun plastpoka.
Þá voru loftslagsmálin rædd ýtarlega á þriðjudag og miðvikudag og loks voru óundirbúnar fyrirspurnir á fimmtudag.
„Hér höfum við verið í einn og hálfan klukkutíma að ræða hápólitísk mál, einhver heitustu mál samtímans, bæði á Íslandi sem og erlendum vettvangi. Mál sem snerta efnahagsmál heimsins alls, mál sem eru náttúrlega utanríkismál líka og við gerum það hér undir hatti umhverfismála. Það segir mér að umhverfismál eru að verða þau mál sem snerta hvað flesta, allan almenning, fyrirtæki og heiminn allan. Einnig hefur komið fram í mörgum ágætum ræðum að til að ná sem mestum árangri á þessu sviði eins og víðast hvar annars staðar er að upplýsa og fræða. Það eru svona lykilorð. Sannarlega tek ég undir það. Ég vil benda á að í upphafsræðu var bent á og vísað í blaðagreinar í Vísi og fleiri miðlum. Með leyfi forseta langar mig til að sýna eina opnu í Morgunblaðinu í dag. Þar eru þrjár fréttir og þær snúa allar að loftslagsmálum, til dæmis: Bráðnun kann að breyta veðurfari. Hér er nefnd áætlun um hvernig auka megi notkun rafmagns í fiskiskipum. Og mjög skemmtileg verðlaun í sambandi við það voru afhent í Hnakkaþoni Háskólans í Reykjavík í gær. Annað sem er ekki gott og snertir okkur líka að ný plöntubaktería hefur greinst með innflutningi á rósum frá Hollandi. Það er því margt sem við sem stýrum umhverfismálum þurfum að hyggja að“, sagði Sigrún Magnúsdóttir.