Categories
Fréttir

Uppfærður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins

Deila grein

22/08/2024

Uppfærður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins

Styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega eru kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var í dag.

Sáttmálinn felur í sér sameiginlega sýn fyrir allt höfuðborgarsvæðið, þar sem lögð verður höfuðáhersla á skilvirka og hagkvæma uppbyggingu samgönguinnviða. Markmiðið er að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði í fremstu röð þannig að svæðið og Ísland allt sé samkeppnishæft um bæði fólk og fyrirtæki.

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna tóku þátt í undirrituninni á blaðamannafundi í dag. - mynd
Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna tóku þátt í undirrituninni á blaðamannafundi í dag.
  • Aukin lífsgæði, greiðari umferð og minni ferðatími í öllum samgöngumátum 
  • Verulegur samfélagslegur ábati og aukið umferðaröryggi 
  • Almenningssamgöngur stórefldar með auknum stuðningi ríkisins

Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, gerðu í dag samkomulag um uppfærðan sáttmála sem felur í sér uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á svæðinu til ársins 2040.

Á sama tíma var undirritað samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að efla almenningssamgöngur, m.a. með auknum stuðningi ríkisins, en sameiginlegt félag verður stofnað um skipulag og rekstur.

Raunhæf áætlun til 2040

Ráðist var í uppfærslu sáttmálans á síðasta ári vegna aukins umfangs og mikilla almennra kostnaðarhækkana. Kostnaðaráætlanir hafa verið endurskoðaðar með fenginni reynslu og mörg verkefni komin nær framkvæmdatíma. Gildistími sáttmálans hefur verið lengdur til ársins 2040 til að tryggja raunhæfan tímaramma fyrir undirbúning og fjármögnun.

Hagkvæmni og samfélagslegur ábati

Sjálfstæð greining á samfélagslegum ábata á verkefnum samgöngusáttmálans (Cowi 2024) bendir til verulegs ávinnings vegna styttri og áreiðanlegri ferðatíma og minni umferðartafa. Heildarfjárfesting samgöngusáttmálans nemur 311 milljörðum kr. Ábatinn er metinn 1.140 milljarðar kr. til 50 ára, innri vextir 9,2% og ábati sem hlutfall af kostnaði er um 3,5. Það þýðir að fyrir hverja krónu sem lögð er í verkefnið fær samfélagið þrjár krónur til baka.

Aukið valfrelsi í samgöngum er lykilatriði í greiningunni, m.a. þar sem fleiri eigi þess kost að nýta almenningssamgöngur með tilheyrandi minnkun umferðartafa og mengunar auk lægri rekstrarkostnaðar heimila.

Stofnvegir, almenningssamgöngur, hjóla- og göngustígar og snjallari umferðarstýring

Allar lykilframkvæmdir eru þær sömu og áður í samgöngusáttmálanum en breytingar eru gerðar á einstökum verkefnum.

Heildarfjárfesting á fyrsta tímabili í uppfærðum samgöngusáttmála, til ársins 2029, er að jafnaði rúmlega 14 ma. kr. á ári. Það samsvarar þriðjungi af árlegum samgöngufjárfestingum á fjárlögum. Á tímabilinu 2030-2040 er heildarfjárfesting að jafnaði 19 ma. kr. á ári. Heildarfjárfesting til ársins 2040 er áætluð 311 ma. kr.

Verkefni samgöngusáttmálans skiptast í fjóra meginflokka sem eru: Stofnvegir, Borgarlína og strætóleiðir, göngu- og hjólastígar og verkefni tengd umferðarstýringu, flæði og öryggi. Eftirfarandi er nánari lýsing á verkefnaflokkunum og hlutdeild í samgöngusáttmálanum:

  • Stofnvegir – 42%. Ráðist verður í sex stór verkefni við stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau þrjú sem lokið er á vegum sáttmálans (stofnvegaverkefni á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut).
  • Borgarlína og strætóleiðir – 42%. Almenningssamgöngur verða stórbættar með uppbyggingu Borgarlínu í sex lotum. Þjónusta við íbúa verður stöðugt bætt með samþættu leiðaneti strætisvagna og Borgarlínu.
  • Hjóla- og göngustígar – 13%. Hjóla- og göngustígum verður fjölgað og þeir bættir verulega í uppfærðum sáttmála, en lagðir verða um 80 km af nýjum stígum til viðbótar við 20 km sem þegar hafa verið lagðir á vegum sáttmálans.
  • Umferðarstýring, umferðarflæði og öryggisaðgerðir – 3%. Fjárfest verður áfram í nýrri tækni og búnaði til að bæta umferðarflæði og -öryggi á stofnvegum

Miklabraut í jarðgöng og ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegs

Stærstu breytingarnar á einstökum verkefnum frá fyrri samgöngusáttmála eru að Miklabraut verði lögð í um 2,8 km jarðgöng með tengigöngum við Kringlumýrarbraut í stað 1,8 km Miklubrautstokks og að Sæbraut verði lögð í stokk í stað fyrri áforma um ein mislæg gatnamót. Þá hafa ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verið útfærð með frjálsu flæði bílaumferðar auk sérrýmis Borgarlínu til að tengja Mjódd við almenningssamgöngukerfið. Loks flytjast framkvæmdir við Suðurlandsveg milli Norðlingavaðs og Bæjarháls yfir á samgönguáætlun. Stöðugt mat er lagt á valkosti sem leiða til aukinnar hagkvæmni og umferðaröryggis.

Aukið framlag í fjármálaáætlun

Skipting fjármögnunar milli ríkis og sveitarfélag verður hin sama og áður, þ.e. sveitarfélög með 12,5% og ríkið 87,5%.

Beint framlag ríkisins í samgöngusáttmálann verður 2,8 ma. kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess er gert ráð fyrir árlegu viðbótarframlagi að fjárhæð 4 ma. kr. í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisins frá 2025 til og með 2029. Þá er gert ráð fyrir auknum ábata af þróun og sölu Keldnalands sem ríkið lagði inn í verkefnið við undirritun samgöngusáttmálans 2019.

Beint framlag sveitarfélaganna verður 1,4 ma.kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess mun árlegt viðbótarframlag að fjárhæð 555 miljónir kr. bætast við bein framlög sveitarfélaganna frá og með 2025. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skipta með sér kostnaði á hverju ári miðað við hlutfallslegan íbúafjölda 1. desember árið á undan.

Frá og með árinu 2030 er gert er ráð fyrir tekjum af umferð eða annarri fjármögnun ríkisins. Stjórnvöld vinna að nýrri nálgun á fjármögnun vegakerfisins sem innleidd verður í skrefum á næstu árum. Stefnt er að því að laga fjármögnunarkerfið að orkuskiptum og minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis, þar sem gjaldtaka miðast við notkun í stað sértækra gjalda á borð við olíu- og bensíngjöld. Fyrstu skrefin hafa þegar verið tekin með upptöku kílómetragjalds á rafmagnsbíla, sem áður greiddu afar takmarkað fyrir notkun vegakerfisins.

Sameiginlegt félag um stórbættar almenningssamgöngur

Ríkið og sveitarfélögin undirrituðu samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulagið felur í sér aukinn fjárstuðning ríkisins og virkari aðkomu að stjórnskipulagi. Ríkið mun bera þriðjung af rekstrarkostnaði að frádregnum farþegatekjum á móti sveitarfélögunum. Þá mun ríkið veita framlög til orkuskipta í almenningssamgöngum.

Samkomulagið felur í sér að sveitarfélögin og ríkið stofni sameiginlegt félag sem beri ábyrgð á skipulagi og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Rekstur nýja félagsins mun taka hvort tveggja til hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu. Stefnt er að því að félagið taki til starfa um næstu áramót.

Þjónusta almenningssamgangna verður efld verulega þangað til nýtt leiðanet kemur að fullu til framkvæmda með Borgarlínunni. Með nýju leiðaneti og Borgarlínu er stefnt að því að sjö af hverjum tíu íbúum verði í göngufjarlægð (400 m frá stoppistöð) frá hágæða almenningssamgöngum sem ganga á sjö-tíu mínútna fresti. Bættar almenningssamgöngur eru lykill að því að bæta lífsgæði íbúa og minnka samgöngukostnað þeirra, bæta flæði umferðar og draga úr mengun.

Um starf viðræðuhóps

Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga hóf uppfærslu samgöngusáttmálans í mars 2023. Viðræðuhópnum var m.a. falið að uppfæra samgöngusáttmálann og framkvæmdaáætlun, vinna áhrifamat af verkefnasafni sáttmálans og gera drög að samningi um eflingu almenningssamgangna til að tryggja rekstur þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga kallaði til fjölda aðila sem sóttu fundi hópsins auk þess sem haft var umfangsmikið samstarf við Betri samgöngur og Vegagerðina. Ragnhildur Hjaltadóttir, stjórnarformaður Betri samgangna, stýrði viðræðuhópnum.

Fylgiskjöl með uppfærðum samgöngusáttmála

  1. Minnisblað samþykkt á fundi forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórum sveitarfélaganna, borgarstjóra og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Samgöngusáttmáli – verkáætlun um uppfærslu forsenda og undirbúning viðauka (2023) 
  2. Cowi/Mannvit. Capital Area Transport Pact Socioeconomic Analysis (2024)
  3. Minnisblað rýnihóps um úrbætur á stjórnkerfi samgöngusáttmála (2024) 
  4. Minnisblað um Miklubraut í jarðgöng (2024) 
  5. Betri samgöngur. Samgöngusáttmálinn. Mörkun og skilgreining framkvæmda (2024)
  6. Uppfærð rekstraráætlun almenningssamgangna: Nýtt leiðanet með Borgarlínu (2024) 
  7. Forsendur rekstraráætlunar Nýs leiðanets (2024)

Heimild: stjr.is