„Virðulegur forseti. Nú reynir á íslenskt samfélag en ég er sannfærð um að okkur takist að ná utan um þá áskorun sem farsóttin er. Mín meginmarkmið sem ráðherra mennta- og menningarmála eru að standa vörð um skólahald í landinu og styrkja menningu og íþróttir. Ég er sannfærð um að það takist.
Í vor tókst okkur að halda menntakerfinu gangandi. Ísland var eitt fárra ríkja sem vann það afrek. Ljóst er að skólastjórnendur, kennarar, nemendur og foreldrar lögðu mikið á sig til að halda úti skólastarfi. Leiðarljósið í þeirri vinnu var velferð nemenda. Það var mjög ánægjulegt að sjá nemendur útskrifast og halda áfram. Það gladdi hjarta mitt mjög mikið að sjá að á Íslandi væri hægt að gera þessa hluti á sama tíma og skólabörn víða í veröldinni hafa ekki komið inn í skólana sína frá því í febrúar. Það er hryllileg tilhugsun. Hér á landi höfum við náð að halda utan um grunnstoðir þessa samfélags. Auðvitað eru áskoranir og við vitum að það fylgir þessari farsótt.
Fyrsti skóladagur vetrarins markar nýtt upphaf í huga nemenda en í þetta sinn er upphaf skólaársins einnig tákn um vilja, þrek og samhug þeirra sem bera ábyrgð. Við munum gera það sem þarf til að tryggja fjármagn inn í menntakerfið og að skólahald verði fyrir sem minnstri röskun. Við sjáum öll hversu viðkvæm staðan er en við verðum öll að vinna í sameiningu og samvinnu. Ég hef verið í mikilli samvinnu við öll skólastig landsins og er stolt af skólafólki okkar og kennaraforystu. Á næstunni mun ég kynna nýja menntastefnu fyrir Ísland en tilgangur hennar er að móta öflugt og sveigjanlegt menntakerfi sem nær til framtíðarinnar.
Virðulegur forseti. Ljóst er að það hefur reynt á menninguna og íþróttirnar. Stjórnvöld gripu strax til aðgerða með því að veita aukið fjármagn til menningarmála og íþrótta. Ég vil nefna að við erum áfram að vinna með þá stöðu. Það er ljóst að við þurfum að fara í frekari aðgerðir og mig langar að nefna að við erum að skoða listasjóð sem gæti náð til listamanna sem hafa misst tekjurnar tímabundið. Þarna erum við að horfa í átt til annarra Norðurlanda. Auðvitað hefur það líka verið tilkynnt að hlutabótaleiðin hefur verið framlengd. Hún hefur verið að nýtast listamönnum afar vel og það er gott að við séum með slík úrræði til að styðja betur við samfélagið okkar. Það sama á við um íþróttirnar. Auðvitað viljum við geta mætt og stutt okkar lið og við erum að vonast til þess að þær aðgerðir sem við höfum gripið til verði til þess að von bráðar getum við mætt á völlinn til þess. Við erum að gera allt sem við mögulega getum til að tryggja að íþróttastarf í landinu nái að halda áfram og að börnin okkar geti sótt æfingar sínar. Við erum ekki bara að gera allt sem við mögulega getum til þess að verja grunnstoðir samfélagsins heldur líka til að efla þær. Ég er sannfærð um að við munum ná utan um þessa stöðu, tryggja öflugt skólahald og líka sækja fram á sviði menningar og íþrótta.“
Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanns Framsóknar á Alþingi 27. ágúst 2020.