Categories
Fréttir

„Veigamesta menntunarhlutverkið er í höndum foreldra“

Deila grein

25/04/2023

„Veigamesta menntunarhlutverkið er í höndum foreldra“

„Við búum í hröðu samfélagi, svo hröðu að við eigum það til að gleyma okkur í amstri dagsins — svo blikkum við og erum komin á efri árin og börnin orðin fullorðin,“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Sagði hún fjölskyldulíf í dag vera allt annað en það hafi verið fyrir 30 árum.

„Í dag eru flestir fjölskyldumeðlimir með stútfullt dags-, viku- og mánaðarplan, allir kappkosta við að klára verkefni dagsins og áður en við vitum af er klukkan orðin hálfgerður óvinur manns,“ sagði Hafdís Hrönn.

Minnti hún á að flest myndum við viljum fleiri klukkustundir í sólarhringinn til að halda skipulagi.

„Við heyrum af því sem einnig hefur verið fleygt fram, að foreldrar í dag geri menntakerfið og skólana í auknum mæli ábyrg fyrir uppeldi barna sinna.“

„Ég velti fyrir mér hvort ekki sé ekki kominn tími á að líta aðeins inn á við,“ sagði Hafdís Hrönn.

Sagði hún veigamesta menntunarhlutverkið vera í höndum foreldra og undirbýr börnin fyrir dýpri færni í lífinu en mögulega sé hægt að læra í skólanum. Þegar svo á reyni verður að vera til staðar öflugt net sem grípur börnin og umfaðmar þau þegar á þarf að halda.

„Markvisst hefur verið unnið að því að vinna niður biðlista í greiningum barna, sem samt lengjast bara og lengjast. Hver er ástæðan? Getur verið að ákveðið tengslarof á milli barna og foreldra sé að eiga sér stað,“ sagði Hafdís Hrönn.

Það hefur komið fram í rannsóknum að rof í tengslum milli foreldra og barna á fyrstu 1.000 ævidögum þeirra geti haft verulega neikvæð áhrif á heilaþroska barna. Spurði hún hvort það sé hraðinn og það að fólk gefi sér ekki nægan tíma til að vera til staðar og í núinu með börnunum.

„Samvinna milli foreldra og skóla þarf að vera góð og öflug svo öll börn nái að blómstra eins og þeim er eðlislægt. Við berum jú öll ábyrgð á menntun barnanna okkar, en fjölskyldan ber þá allra mikilvægustu,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Við búum í hröðu samfélagi, svo hröðu að við eigum það til að gleyma okkur í amstri dagsins — svo blikkum við og erum komin á efri árin og börnin orðin fullorðin. Fjölskyldulíf í dag er allt annað en það var fyrir 30 árum síðan. Í dag eru flestir fjölskyldumeðlimir með stútfullt dags-, viku- og mánaðarplan, allir kappkosta við að klára verkefni dagsins og áður en við vitum af er klukkan orðin hálfgerður óvinur manns. Flest myndum við vilja fleiri klukkustundir í sólarhringinn til að halda skipulagi. Allir eru ómissandi með allt sitt, eða hvað?

Við heyrum af því sem einnig hefur verið fleygt fram, að foreldrar í dag geri menntakerfið og skólana í auknum mæli ábyrg fyrir uppeldi barna sinna. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé ekki kominn tími á að líta aðeins inn á við. Fjölskyldan hefur veigamesta menntunarhlutverkið og í því felst öðruvísi og dýpri færni í lífinu en fæst úr menntakerfinu. Þegar á reynir þurfum við einnig öflugt net sem grípur börnin okkar með þær áskoranir sem þau kunna að búa við og samfélag sem umfaðmar þau þegar á þarf að halda. Markvisst hefur verið unnið að því að vinna niður biðlista í greiningum barna, sem samt lengjast bara og lengjast. Hver er ástæðan? Getur verið að ákveðið tengslarof á milli barna og foreldra sé að eiga sér stað? Rannsóknir hafa sýnt að rof í tengslum milli foreldra og barna á fyrstu 1.000 ævidögum þeirra getur haft verulega neikvæð áhrif á heilaþroska barna. Er það hraðinn og það að við gefum okkur ekki nægan tíma til að vera til staðar og í núinu með börnunum okkar? Samvinna milli foreldra og skóla þarf að vera góð og öflug svo öll börn nái að blómstra eins og þeim er eðlislægt. Við berum jú öll ábyrgð á menntun barnanna okkar, en fjölskyldan ber þá allra mikilvægustu.“