Helgi Héðinsson, varaþingmaður, kallar eftir að send verði skýr skilaboð út í samfélagið um aga og samstöðu á krefjandi tímum og að Alþingi gangi fram með góðu fordæmi. Segir hann öflug verkfæri vera til, til að verjast verðbólgunni, s.s. fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028, sem er nú til umfjöllunar á Alþingi.
„Verðbólgan er á fleygiferð og við finnum öll fyrir því á eigin skinni. Vextir hækka, greiðslubyrði lána þyngist, matarkarfan verður sífellt dýrari og mörgum reynist erfitt að ná endum saman,“ sagði Helgi og hélt áfram, „við viljum ekki frekari vaxtahækkanir. Við eigum að treysta aðhaldið og tryggja nauðsynlega tekjuöflun. Við eigum að hægja ferðina með niðurfellingu ívilnana og skattafslátta á þeim stöðum þar sem milljarðar renna í vasa sem þurfa ekki á þeim að halda.“
„Húsnæðismarkaðurinn, þar sem framboð hefur ekki mætt eftirspurn um langt skeið, hefur verið drifkraftur verðbólgu síðustu misseri. Markaðsbrestur er ríkjandi og það er mjög aðkallandi að tryggja aukið framboð húsnæðis sem mætt getur fjölbreyttum þörfum fólks. Íslendingar þekkja allt of vel hvaða áhrif verðbólga getur haft ef ekki tekst að kveða hana niður. Í því ljósi verður að vera algert forgangsmál að grípa til aðgerða sem styðja við Seðlabankann í þeirri viðleitni að ná verðbólgunni niður. Enginn kærir sig um að skilja Seðlabankann einan eftir í súpunni með sitt breiðvirka en sársaukafulla meðal, vaxtahækkanir,“ sagði Helgi.
Ræða Helga í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Ég vil byrja á, í ljósi þeirra áskorana sem hér eru ræddar í dag, að minnast Tryggva bróður míns sem féll fyrir eigin hendi þennan dag fyrir þremur áratugum. Því miður bíða þau grimmu örlög að dauðinn sé betri en lífið allt of margra og við eigum sem samfélag að leggjast á eitt að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi. Í því samhengi vil ég ræða eina stærstu ógnina sem að okkur steðjar um þessar mundir og veikir getu okkar til að styrkja stoðir samfélagsins; verðbólguna. Verðbólgan er á fleygiferð og við finnum öll fyrir því á eigin skinni. Vextir hækka, greiðslubyrði lána þyngist, matarkarfan verður sífellt dýrari og mörgum reynist erfitt að ná endum saman. Húsnæðismarkaðurinn, þar sem framboð hefur ekki mætt eftirspurn um langt skeið, hefur verið drifkraftur verðbólgu síðustu misseri. Markaðsbrestur er ríkjandi og það er mjög aðkallandi að tryggja aukið framboð húsnæðis sem mætt getur fjölbreyttum þörfum fólks. Íslendingar þekkja allt of vel hvaða áhrif verðbólga getur haft ef ekki tekst að kveða hana niður. Í því ljósi verður að vera algert forgangsmál að grípa til aðgerða sem styðja við Seðlabankann í þeirri viðleitni að ná verðbólgunni niður. Enginn kærir sig um að skilja Seðlabankann einan eftir í súpunni með sitt breiðvirka en sársaukafulla meðal, vaxtahækkanir. Við viljum ekki frekari vaxtahækkanir. Fjárlaganefnd Alþingis hefur nú til umfjöllunar fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Þar eru öflug verkfæri til að verjast verðbólgunni. Við eigum að treysta aðhaldið og tryggja nauðsynlega tekjuöflun. Við eigum að hægja ferðina með niðurfellingu ívilnana og skattafslátta á þeim stöðum þar sem milljarðar renna í vasa sem þurfa ekki á þeim að halda. Slík aðgerð sendir skýr skilaboð um aga og samstöðu á krefjandi tímum og við eigum að ganga fram með góðu fordæmi.“