Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5%.
„Við erum á réttri leið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.
- Við erum með ábyrga og trausta efnahagsstefnu;
- Við erum með langtímakjarasamninga sem stuðla að stöðugleika, svo aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið sína plikt;
- Við erum að sjá verðbólguvæntingar lækka og þær hafa ekki verið lægri síðan í byrjun árs.
„Svo það er alveg kýrskýrt að við erum að ná tökum á verðbólgunni og það án þess að nein teikn séu á lofti um kollsteypu í efnahagslífinu. Þvert á móti virðumst við vera að ná að lenda hagkerfinu mjúklega. Það er risamál.“
Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 50 punkta í dag og var búin að lækka í október um 25 punkta. Vextir hafa þannig…
Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
„Það sem við höfum líka sagt er að þrátt fyrir að þetta sé orðið langt tímabil þá þurfum við að sýna þolinmæði. Það er hálf óþolandi, ekki síst þegar stutt er í kosningar, en það er ábyrga leiðin til að ná niður verðbólgu en á sama tíma lenda hagkerfinu mjúklega.
Það munar strax um þessar vaxtalækkanir. Greiðslubyrði 30 m.kr. láns lækkar um 190 þúsund krónur á ári við aðeins þær vaxtalækkanir sem þegar hafa orðið.
Þetta snýst líka um fyrirtækin, ekki síst þau sem eru í alþjóðlegri samkeppni, að þau búi við samkeppnishæft umhverfi til að vaxa og dafna og stuðla að bættum lífskjörum fólks í landinu.
Við erum í dauðafæri á að halda áfram á þessari braut. Það eru öll teikn á lofti um að vextir geti lækkað áfram. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það krefst þess að við höldum áfram rétt á spilunum og tryggjum ábyrga, yfirvegaða og trausta hagstjórn,“ segir Sigurður Ingi.
***
Yfirlýsing peningastefnunefndar 20. nóvember 2024
„Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5%.
Verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mældist 5,1% í október. Hjöðnun verðbólgu er á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað. Þá hafa verðbólguvæntingar almennt lækkað og raunvextir því hækkað.
Áhrifa þétts peningalegs taumhalds gætir áfram í efnahagsumsvifum og hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar. Atvinnuleysi heldur áfram að þokast upp og horfur eru á að það dragi úr spennu í þjóðarbúinu þótt það gerist hægar en áður var talið.
Þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar yfir markmiði kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“