Categories
Fréttir

„Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum“

Deila grein

14/03/2025

„Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um stöðu efnahagsmála í aðdraganda fjármálaáætlunar á Alþingi. Sagði hann við blasa meiri háttar áskoranir bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að þingið ræði helstu áskoranir og tækifæri sem Ísland stendur frammi fyrir, sérstaklega í ljósi óvissu í alþjóðamálum.

Alþjóðleg óvissa hefur áhrif á íslenskt efnahagslíf

„Breytingar á tollaumhverfi, líkur á aukinni verðbólgu, áframhaldandi stríðsátök og sveiflur í hrávöruverði skapa krefjandi aðstæður utan frá sem krefjast varfærinnar og markvissrar hagstjórnar. Það blasir við að staða mála er mörkuð mun meiri óvissu en síðastliðið haust,“ sagði Sigurður Ingi. Hann lagði áherslu á að vakandi þyrfti að vera fyrir því hvernig þessi þróun hefur áhrif á stöðu Íslands og hvernig bregðast megi við til að tryggja velferð almennings.

Hagræðing og sjálfbær fjármál í forgrunni

Ríkisstjórnin hefur kynnt tillögur um hagræðingu í opinberum rekstri sem forsenda sjálfbærra fjármála ríkisins. Einnig hefur verið lagt fram langtímaáætlun fjármálaráðuneytisins um efnahagsmál sem lýsir umtalsverðri óvissu um stöðu efnahagsmála.

Sigurður Ingi spurði fjármála- og efnahagsráðherra um viðbrögð og aðgerðaáætlanir ríkisstjórnarinnar vegna hugsanlegra breytinga á tollaumhverfi og sölu ríkiseigna. Hann benti á að fram settar tölur um áætlaðan sparnað væru byggðar á veikum grunni og kallaði eftir skýrum svörum um hvort tillögur hagræðingarhópsins yrðu settar fram í komandi fjármálaáætlun. Hann lagði einnig áherslu á nauðsyn þess að tryggja að aðstæður haldist til frekari vaxtalækkunar.

Óvissa um sölu ríkiseigna

Þá vék hann einnig að sölu ríkiseigna og spurði sérstaklega um stöðu Íslandsbanka og Isavia.

„Hvað með sölu ríkiseigna? Væntanlega stendur til að selja Íslandsbanka á næstunni þrátt fyrir andstöðu Flokks fólksins, alla vega á síðasta kjörtímabili, í hinni samhentu ríkisstjórn. Stendur það til? Hvað með Isavia? Á síðustu mánuðum mínum í fjármálaráðuneytinu lét ég vinna skýrslu til að fá betri upplýsingar um eignarhald og rekstrarfyrirkomulag á slíku fyrirkomulagi eins og hjá Isavia. Er sú skýrsla komin fram, mér skilst það, og verður hún birt?“

Framsókn kallar eftir gegnsæi og samstöðu

Sigurður Ingi undirstrikaði mikilvægi skýrrar stefnu og afstöðu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hann kallaði eftir samstöðu Alþingis og auknu gegnsæi við stjórn ríkisins til að tryggja velferð almennings og bregðast við óvissu í alþjóðamálum. Hann lýsti yfir vilja Framsóknar til heiðarlegs og málefnalegs samtals um efnahagsmál.

„Við nálgumst tíu ára afmæli laga um opinber fjármál. Lögin hafa gjörbreytt stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Í ljósi tíu ára reynslu og áforma um nýja stöðugleikareglu, sem við í Framsókn styðjum, sem ríkisstjórnin hefur kynnt er tilefni til að ræða hvort ekki sé kominn tími til að meta hvort lögin hafi yfirleitt skilað tilætluðum árangri og hvað megi bæta.“

Ítrekaði Sigurður Ingi mikilvægi þess að stjórnvöld og Alþingi standi saman í mótun efnahagsstefnu landsins.

Skýr stefna og afstaða ríkisstjórnarinnar er nauðsyn. Samstaða Alþingis vegna stöðunnar í alþjóðamálum hefur sjaldan verið eins mikilvæg og nú. Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum og aukið gegnsæi við stjórn ríkisins. Við í Framsókn erum tilbúin í heiðarlegt og málefnalegt samtal um allt ofangreint. Við verðum að standa saman.“ sagði Sigurður Ingi að lokum.