Categories
Fréttir

„Við þurfum sókn, ekki bara átak“

Deila grein

21/10/2025

„Við þurfum sókn, ekki bara átak“

„Kerecis, Controlant, CCP, Grid, Marel, Meniga og Myrkur Games… þetta eru ekki orð í skrúfu heldur fyrirtæki sem hafa skapað gríðarlega þekkingu og verðmæti fyrir íslenskt samfélag,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í sérstakri umræðu á Alþingi um stöðu verkfræði-, stærðfræði-, raunvísinda- og náttúruvísindanáms á háskólastigi.

Halla Hrund lagði áherslu á að efling STEM-greina væri lykilforsenda samkeppnishæfni þjóðarbúsins, bæði með hliðsjón af yfirstandandi tæknibyltingu í gervigreind og til að laða ungt fólk aftur heim úr námi. „Ef þessum fyrirtækjum tekst vel til þá græða allir í íslensku samfélagi,“ sagði hún og nefndi m.a. Oculis, Lucinity, Bláa lónið, GeoSilica, 1939 Games og Aldin Dynamics sem dæmi um sprota og vaxtarfyrirtæki sem byggja á STEM-menntun.

Kallar eftir „sókn“ í stað „átaks“

Halla Hrund hvatti menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra til að stilla upp markvissri sóknaráætlun. „Við erum að tala um átak í grunnskólum og framhaldsmenntun, en við þurfum sókn núna því málin breytast hratt,“ sagði hún og óskaði eftir skýrari útfærslu á því hvernig slík sókn myndi birtast og tengjast stuðningi við nýsköpunarumhverfið og atvinnustefnu í mótun.

Grunnurinn þarf að vera sterkur og seiglan skipti máli

Í seinni ræðu sinni þakkaði Halla Hrund fyrir málefnalega umræðu og tók undir ábendingar þingmanna um að grunnfærni í stærðfræði og raungreinum yrði að vera traust. Hún lagði jafnframt áherslu á aga og þrautseigju í námi: „Við þurfum að æfa seigluna, æfa okkur í því sem krefst aga,“ sagði hún og vísaði til innlegga sem bentu á mikilvægi vinnuvana og úthalds.

Auðlindirnar drifkraftur byggðaþróunar

Halla Hrund beindi sérstakri athygli að tækifærum í auðlindatengdri nýsköpun um land allt. „Þetta er sennilega eitt mesta tækifærið fyrir byggðaþróun; auðlindirnar eru dreifðar og því getur verðmætasköpunin orðið það líka,“ sagði hún og nefndi sem dæmi Kerecis og Primex ásamt Bláa lóninu og GeoSilica.

Til að kveikja áhuga ungmenna lagði hún til að skólakerfið og atvinnulífið næðu betur saman með markvissum kynningum og heimsóknum: „Fáum ungt fólk inn á vinnustaðina, sýnum þeim verkefnin og tengjum algebruna við raunveruleg tækifæri. Þá skýrist myndin og þá vegnar okkur vel.“