Categories
Fréttir

„Við viljum öll komast heil heim“

Deila grein

07/02/2024

„Við viljum öll komast heil heim“

„Nú eru 37 dagar liðnir af árinu og á þessum stutta tíma hafa orðið fjögur alvarleg umferðarslys þar sem margir hafa slasast og sex manns hafa hlotið bana. Ég votta aðstandendum þeirra samúð mína,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Nú byrja ég hvern einasta vinnudag á því að keyra hingað á höfuðborgarsvæðið úr Borgarfirðinum. Á þessu ári hefur nær alltaf verið nýr bíll í kantinum sem hefur lent í vandræðum á veginum og jafnvel keyrt út af og jafnvel oltið, af því að við búum á hættulegu landi þegar kemur að veðurfari og umferð.“

Fór hún yfir að á þjóðvegi 1 sé „gríðarlega þung umferð“ og ferðamenn að aka hér í fyrsta sinn. Til viðbótar þá féllu á síðasta sólarhring snjóflóð í Súðavíkurhlíð og í Ólafsfjarðarmúla. „Við hér á þingi getum gert margt til að vernda fólk í umferðinni; með betra undirlagi, jarðgöngum, vegriðum og hreinlega að loka vegum þegar þeir eru hvað hættulegastir.“

„Við erum að vinna að samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd hér á þingi og ég veit að hæstv. innviðaráðherra sem fer með samgöngumálin brennur fyrir því að vegir hér á landi séu eins öruggir og hugsast getur. En þetta tekur allt tíma og slysin gera ekki boð á undan sér. Því vil ég biðla til þeirra sem eru hér að hlusta: Keyrið varlega og sýnið þeim þolinmæði sem eru ekki jafn örugg í umferðinni og þið, því að við viljum öll komast heil heim,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Nú eru 37 dagar liðnir af árinu og á þessum stutta tíma hafa orðið fjögur alvarleg umferðarslys þar sem margir hafa slasast og sex manns hafa hlotið bana. Ég votta aðstandendum þeirra samúð mína. Nú byrja ég hvern einasta vinnudag á því að keyra hingað á höfuðborgarsvæðið úr Borgarfirðinum. Á þessu ári hefur nær alltaf verið nýr bíll í kantinum sem hefur lent í vandræðum á veginum og jafnvel keyrt út af og jafnvel oltið, af því að við búum á hættulegu landi þegar kemur að veðurfari og umferð. Í gær féllu tvö snjóflóð, í Súðavíkurhlíð og í Ólafsfjarðarmúla. Súðavíkurhlíð er reyndar hættuleg allt árið því að þar er einnig grjóthrun úr hlíðinni. Á Vestfjörðum eru oft mjög erfiðar aðstæður og margir sem veigra sér við því að keyra á milli staða. Á hringveginum er síðan gríðarlega þung umferð og oft er þar fólk að keyra um íslenska vegi í fyrsta sinn. Við hér á þingi getum gert margt til að vernda fólk í umferðinni; með betra undirlagi, jarðgöngum, vegriðum og hreinlega að loka vegum þegar þeir eru hvað hættulegastir. Við erum að vinna að samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd hér á þingi og ég veit að hæstv. innviðaráðherra sem fer með samgöngumálin brennur fyrir því að vegir hér á landi séu eins öruggir og hugsast getur. En þetta tekur allt tíma og slysin gera ekki boð á undan sér. Því vil ég biðla til þeirra sem eru hér að hlusta: Keyrið varlega og sýnið þeim þolinmæði sem eru ekki jafn örugg í umferðinni og þið, því að við viljum öll komast heil heim.“