Categories
Fréttir

„Við viljum sjá íslenska ferðaþjónustu vera leiðandi í sjálfbærri þróun“

Deila grein

10/09/2024

„Við viljum sjá íslenska ferðaþjónustu vera leiðandi í sjálfbærri þróun“

Ný ferðamálastefna verður framkvæmd af krafti og fyrstu aðgerðir kynntar nú í vikunni. Samkvæmt nýbirtu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2025 er heildarfjárheimild til málaflokks ferðaþjónustu áætluð 2.415,3 m.kr. Undir málaflokkinn heyrir meðal annars Ferðamálastofa, Flugþróunarsjóður og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

,,Ferðaþjónustan er stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins og það er mikilvægt að tryggja henni sterka umgjörð til þess að vaxa og dafna. Við viljum sjá íslenska ferðaþjónustu vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis og að hún sé arðsöm og samkeppnishæf í samanburði við önnur ríki,‘‘ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra.

Fjölbreyttar aðgerðir raungerast

Um 200 milljónum króna verður ráðstafað í forgangsaðgerðir í nýju stefnunni. Má sem dæmi nefna:

  • Bætt öryggi ferðamanna.
  • Fjármögnun og rekstur áfangastaða.
  • Þróun verkfærakistu til að meta þolmörk og bregðast við álagi á áfangastöðum ferðamanna.
  • Innleiðing álagsstýringar á áfangastöðum ferðamanna.
  • Stutt við áfangastaðastofur landshlutanna sem stoðkerfi ferðaþjónustunnar.
  • Aukið fjármagn til rannsókna, opið gagnarými fyrir ferðaþjónustu og samstarf um rannsóknir á sviði ferðamála.
  • Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskrar tungu og menningar.

Þá er greiningarvinnu á framtíðarhorfum í ferðaþjónustu, í samvinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Íslandsstofu að ljúka. Greiningarvinnan verður nýtt til að undirbyggja frekari ákvarðanatöku í tengslum við markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna.

Stutt betur við aukna dreifingu ferðamanna um landið

Aukin áhersla verður lögð á dreifingu ferðamanna um landið með hækkun á fjárheimild Flugþróunarsjóðs sem nemur 100 m.kr. Flugþróunarsjóður hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands svo koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Síðustu ár hefur náðst mikill árangur, nú síðast með tilkomu beins flugs með EasyJet til og frá London Gatwick. Beint flug stuðlar að betri rekstrarskilyrðum fyrirtækja víðar um land, meiri nýtingu innviða utan háannar, bættum búsetuskilyrðum og auknum lífsgæðum heimamanna.

Heimild: stjr.is