Categories
Fréttir

Vill takmarka jarðakaup erlendra aðila á Íslandi

Deila grein

26/03/2025

Vill takmarka jarðakaup erlendra aðila á Íslandi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi sem miðar að því að takmarka jarðakaup erlendra aðila hér á landi. Tillagan felur í sér að atvinnuvegaráðherra verði falið að skipa sérfræðihóp í samráði við forsætis-, dómsmála-, samgöngu- og sveitarstjórnar- og umhverfisráðherra sem skili drögum að frumvarpi um málið eigi síðar en á haustþingi 2025.

Tillagan er lögð fram vegna aukinnar áhættu sem þingmenn telja stafa af erlendu eignarhaldi á íslenskum auðlindum, s.s. jarðefnum, vatni og orku.

„Við verðum að efla löggjöf um jarðamál svo að við séum ekki að selja auðlindir úr landi. Tillagan er sett fram með langtímahagsmuni Íslands að leiðarljósi,“ sagði Halla Hrund.

Vísaði hún sérstaklega til jarðakaupa á Mýrdalssandi í útflutningsskyni og kaupa á vatnsréttindum sem upphaflega voru hugsuð fyrir sveitarfélög. Halla Hrund bendir á að græn orka verði mikilvæg framtíðarauðlind, líkt og olía áður fyrr og því þurfi að gæta vel að eignarhaldi þessara auðlinda.

Lögin voru ekki hönnuð til að flytja út fjöll og fell

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að alþjóðaviðskipti séu lífæð þjóðarinnar en að ekki sé nauðsynlegt að selja auðlindir út úr landinu. Þess í stað mætti veita aðkomu erlendra aðila að verkefnum með nýtingarleyfum, líkt og gert er í Ástralíu og ýmsum Evrópuríkjum.

Málið vekur upp spurningar um geopólitíska hagsmuni og stjórn Íslands til langs tíma, þar sem fjöldi jarða í erlendri eigu gæti haft áhrif á fullveldi og þróun landsins. Halla Hrund segir mikilvægt að tryggja að auðlindir verði áfram í íslenskri eigu, ekki aðeins fyrir nútímafólk heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Bent er á mikilvægi fyrri baráttu um yfirráð yfir auðlindum eins og fiskimiðum og orkuframleiðslu sem tryggt hafa sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar.

Með tillögunni er kallað eftir aukinni lagasetningu og stjórnsýslu sem tryggir að Ísland nýti auðlindir sínar sjálft en jafnframt á ábyrgan hátt gagnvart alþjóðlegu fjármagni og fjárfestingum.

Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi: