Categories
Greinar

Alþingi og stjórnskipun Íslands – virðing eða hnignun

Deila grein

19/09/2015

Alþingi og stjórnskipun Íslands – virðing eða hnignun

Vigdís HauksdóttirSamkvæmt stjórnskipun landsins gengur stjórnarskráin framar öðrum lögum. Lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum sem eru lagðar fram í þinginu sem stríða gegn stjórnarskránni skal skýlaust vísað frá á lagatæknilegum grunni. Lagasetning hér á landi er ófullnægjandi í samanburði við Norðurlöndin og fjöldi dómsmála staðfestir það, nú síðast t.d. Árna Páls lögin. Ég hef því í sjöunda sinn lagt fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum, um Lagaskrifstofu Alþingis sem hafi það hlutverk að samræma reglur um samningu lagafrumvarpa og undirbúning löggjafar. Lagaskrifstofan skuli vera til ráðgjafar um undirbúning löggjafar og skal einkum líta til þess að frumvörp standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Eftir að hafa verið þingmaður í rúm sex ár hef ég sannfærst um að búið sé að vinna mikið tjón á þinginu innan frá með sífelldum breytingum á þingsköpum undanfarin 10-15 ár. Alþingi er komið í öngstræti og stundum vart starfhæft og er það mikið áhyggjuefni fyrir þjóðþing sjálfstæðar þjóðar. Þingmenn hafa gengið á lagið vegna óskýrra þingskapa. Lagahyggjan er mikil – og leysa á öll mál með nýrri löggjöf um bókstaflega allt. Þá er ekki verið að huga að »lagabótum« á ýmsum þáttum lagakerfis okkar því sífellt færist það í aukana að kollsteypa á sér stað og heilu lagabálkarnir eru endurskrifaðir með fjölmörgum »laumufarþegum« og eldri lögum beinlínis hent. Hér á ég t.d. við boðuð ný frumvörp um Umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Hverjum er verið að þjóna? Hver biður um slíkt? Ekki verður rætt hér um áhlaupið sem gert var á stjórnarskrána á síðasta kjörtímabili.

Ég var því afar undrandi þegar forsætisnefndarmenn og formenn þingflokka lögðu fram þingsályktunartillögu um siðareglur þingmanna í annað sinn. Þessi þingsályktunartillaga er marklaus þar sem í 47. gr. stjórnarskrárinnar segir: »Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild« og í 48. gr. er kveðið skýrt á um að: »Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.« Er þessum stjórnarskrárákvæðum fylgt eftir í lögum um þingsköp Alþingis til framkvæmda, sbr. 2. gr. »Sérhver nýr þingmaður skal vinna svofellt drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins. Meðan þingmaður hefur ekki unnið heit samkvæmt þessari grein má hann ekki taka þátt í þingstörfum.« Ég veit ekki hver hefur verið flutningsmönnum til ráðgjafar í þessu siðareglna-máli. En eitt er víst að um vanþekkingu er að ræða á stjórnskipun landsins. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er bent á siðareglur Evrópuráðsþingsins, sem eru settar fyrir fjölþjóðasamkomu en ekki þjóðþing hvers ríkis. Þarna opinberast aftur vanþekking – að ætla að tefla slíkum reglum gegn stjórnarskrárvörðum réttindum alþingismanna. Þeir eru einungis bundnir sannfæringu sinni og Alþingi hefur engar valdheimildir til að framfylgja slíkum siðareglum. Það eru landsmenn sjálfir sem endurmeta umboð og frammistöðu þingmanna í alþingiskosningum í síðasta lagi á fjögurra ára fresti. Virðing Alþingis verður endurheimt þegar þingið sjálft fer í einu og öllu að stjórnskipun Íslands sem mælt er fyrir um í stjórnarskrá og fer að sinna störfum sínum af alvöru.

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. september 2015.