Það að fá líffæri að gjöf er annað tækifæri til lífs og aukinna lífsgæða. Líffæraígræðslur hafa verið stundaðar frá því snemma á 6. áratugnum en fyrsta ígræðslan var gerð í Boston árið 1954. Á árunum 1972 til 1991 voru Íslendingar einungis þiggjendur af Norrænu ígræðslustofnuninni (Scandiatransplant) án þess að gefa sjálfir líffæri í staðinn. Það breyttist árið 1991 þegar lög voru sett á Alþingi um brottnám líffæra og ákvörðun dauða. Frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi um breytingar á núgildandi lögum í ætlað samþykki. Vorið 2014 var málinu vísað til ríkisstjórnarinar og nú hefur heilbrigðisráðherra sett saman starfshóp sem á að skila niðurstöðum fyrir 1. mars 2015. Verkefni hópsins felst í að finna leiðir að því markmiði að fjölga líffæragjöfum á Íslandi.
Viljugir líffæragjafar en eru ekki skráðir
Flestir vilja láta gott af sér leiða og gefa líffæri sín ef mögulegt er en þó eru ýmsar siðferðislegar og praktískar spurningar sem vakna þegar til umræðu er að breyta lögum á þann veg að gert verði ráð fyrir ætluðu samþykki fyrir líffæragjöf. Í 10.tbl. Læknablaðsins 2014 var birt rannsókn Karenar Rúnarsdóttur meistaranema um viðhorf Íslendinga til ætlaðs samþykkis við líffæragjöf. Þar kemur m.a. fram að meirihluti Íslendinga er hlynntur því að gert verði ráð fyrir ætluðu samþykki (rúmlega 80%) við líffæragjöf. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þá voru aðeins 5% þátttakenda í rannsókninni skráðir líffæragjafar.
Samverkandi úrræði til að fjölga líffæragjöfum
Á sl. fimm árum á Íslandi voru 39 einstaklingar úrskurðaðir heiladauðir og komu því til álita sem gjafar. Þeir sem samþykktir voru sem líffæragjafar voru 18 talsins. Í 11 tilvikum var líffæragjöf ekki möguleg af læknisfræðilegum ástæðum og aðstandendur neituðu í 6 tilvikum. Hlutfall þeirra líffæragjafa sem hafnað er hefur haldist svipað undanfarin ár. En hvaða úrræði væru heppilegust til að fjölga mögulegum líffæragjöfum hér á landi? Í umræddri rannsókn Karenar Rúnarsdóttur og í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá undirritaðri, kemur fram að reynsla annarra þjóða sýni að grípa þurfi til fjölþættra aðgerða í þeim tilgangi. Breytingar á núverandi löggjöf er ein leið en samhliða þarf að auka upplýsingagjöf til almennings og þjálfa heilbrigðisstarfsmenn. Einnig væri nauðsynlegt að auðvelda þeim sem þess að óska að skrá vilja sinn til líffæragjafar á einfaldan hátt í rafrænan miðlægan gagnagrunn. Að sögn heilbrigðisráðherra er smíð á rafrænum gagnagrunni er langt á veg komin hjá embætti landlæknis.
Lagabreytingar ekki tímabærar
Þinglegur ferill málsins um að breyta lögum nr.16/1991 um brottnám líffæra í ætlað samþykki hefur verið ansi langur. Haustið 2013 lagði undirrituð fram frumvarp þess efnis en þá hafði það verið gert tvívegis áður. Undir lok vorþings var ályktun Velferðarnefndar um að vísa verkefninu til ríkisstjórnarinnar, samþykkt á Alþingi. Í nefndaráliti kemur fram að nefndin telji ekki tímabært að leggja til grundvallarlagabreytingu á núgildandi lögum þar sem breytingin ein og sér hefur ekki tilætluð áhrif, skv. reynslu annarra þjóða og einnig gæti hún getur vegið að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga.
Skýrt markmið
Velferðarnefndin lagði enn fremur til að ráðherra skilaði skýrslu á vorþingi 2015 um niðurstöður vinnunnar ásamt tillögum um framhald málsins. Í framhaldinu ákvað ráðherra að skipa starfshóp. Hópnum verður falið að skila skýrslu til ráðherra fyrir 1. mars 2015 þar sem fram koma niðurstöður hópsins ásamt tillögum um framhald málsins. Það sem hópurinn á að taka til sérstakrar skoðunar er:
– hvernig eigi að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum.
– að efnt verði til víðtækrar þjóðfélagsumræðu um mikilvægi líffæragjafa.
– að útbúið verði fræðsluefni um líffæragjöf.
– að markvisst verði unnið að þjálfun og fræðslu heilbrigðisstarfsfólks.
– reynslu annarra þjóða af lagabreytingum í átt til ætlaðs samþykkis.
– að kannað verði hvort aðrar leiðir séu mögulegar til fjölgunar á líffæragjöfum, m.a. verði skoðaðar leiðir um krafið svar, skráningu í ökuskírteini, skattskýrslu eða á annan sambærilegan hátt.
– að hugað verði að réttarstöðu þeirra sem vegna andlegs eða líkamlegs ástands eru ekki færir um að taka ákvarðanir um líffæragjöf.
– að aðgengilegt verði fyrir einstaklinga að skrá vilja sinn til líffæragjafar.
– að ráðherra skili Alþingi skýrslu á vorþingi 2015 þar sem fram komi niðurstaða þeirrar vinnu sem lögð er til hér og með tillögum um framhald málsins.
– að 29. janúar ár hvert verði dagur líffæragjafa.
Enn er ekkert í hendi varðandi niðurstöður enda um afar flókið og viðkvæmt mál að ræða. En þó eru blikur á lofti og mikill áhugi bæði hjá stjórnvöldum og almenningi að fjölga líffæragjöfum á Íslandi.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Greinin birtist í DV 21. október 2014.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.