Ámánudagskvöld urðu þau stórtíðindi á Alþingi að fjögur stór samgönguverkefni voru samþykkt: samgönguáætlanir til fimm og fimmtán ára, lög um samvinnuverkefni í samgöngum sem byggja á Hvalfjarðargangamódelinu og lög um hlutafélag um framkvæmdir vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Fólk gerir sér eflaust ekki fyllilega grein fyrir því afreki sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur unnið með því að ná þessum málum í gegn. Þeir sem hafa fylgst með umræðum um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu síðustu árin og áratugina vita að þar hefur verið mikill ágreiningur milli ríkisins og sveitarfélaganna og þá sérstaklega Reykjavíkurborgar. Enda hefur ríkt algjör stöðnun í samgöngum á þessu fjölmennasta svæði landsins og afleiðingarnar augljósar: sífellt þyngri umferð, meiri tafir og meiri mengun.
Samgöngusáttmálinn sem skrifað var undir markar tímamót að mörgu leyti. Stóra afrekið felst ekki síst í að ná öllum sveitarfélögunum og ríkinu að sama borði með það að markmiði að ná samkomulagi um niðurstöðu sem allir aðilar geta sætt sig við. Sú leið hefur ekki verið einföld enda ólík sjónarmið uppi. Með þessu samtali ráðherrans við sveitarfélögin og Vegagerðina hefur ísinn verið brotinn og við, íbúar í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu öllu, sjáum nú loks fram á betri tíð í samgöngum.
Niðurstaðan er fjölbreyttar samgöngur þar sem stofnbrautir verða byggðar upp, göngu- og hjólastígar lagðir og innviðir alvöru almenningssamgangna verða að veruleika. Allt styður þetta við heilbrigðara samfélag, styttir ferðatíma á svæðinu, minnkar mengun og eykur allt umferðaröryggi.
Þetta var mögulegt með leið Framsóknar: samvinnu. Ekki vinstri, ekki hægri heldur áfram veginn.
Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrí og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní 2020.