Categories
Greinar

Bregðumst af þunga við sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð

Deila grein

23/05/2016

Bregðumst af þunga við sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð

Lilja Alfreðsdóttir

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur boðað til fundar leiðtoga heimsins um mannúðarmál í Istanbúl 23.-24. maí. Leiðtogafundurinn er haldinn í kjölfar samráðs við breiðan hóp hagsmunaaðila, allt frá ríkisstjórnum til staðbundinna hjálparsamtaka. Við erum sammála um að bregðast þurfi við því ástandi sem hefur skapast í heiminum en við stöndum frammi fyrir því að æ fleiri eru háðir mannúðaraðstoð og sviptir mannlegri reisn. Við getum aðeins breytt þessu ástandi með alþjóðlegri samvinnu og sameiginlegu átaki.

Mannúðaraðstoð Norðurlandanna hefur í áranna rás hjálpað milljónum fórnarlamba náttúruhamfara og hamfara af mannavöldum. Á síðasta ári nam þessi aðstoð tæpum 150 milljörðum íslenskra króna, sem skipar Norðurlöndunum á sess með stærstu veitendum mannúðaraðstoðar í heiminum. Við munum halda áfram að veita þeim aðstoð sem mest þurfa á henni að halda og grundvalla hana á meginreglum um mannúðaraðstoð: sjálfstæði, óhlutdrægni, hlutleysi og mannúð. Jafnframt verðum við að finna nýjar leiðir til að draga úr þörfinni. Ekki er réttlætanlegt að fólk sé háð neyðaraðstoð áratugum saman án vonar um betri tíð; við höfum orðið vitni að grafalvarlegum afleiðingum þess á síðasta ári í Asíu, Afríku og einnig í Evrópu. Leiðtogafundurinn á að senda afgerandi skilaboð þar sem kallað er eftir pólitískri forystu til að leysa neyðarástand. Í dag eru átök orsök 80% af þörfinni fyrir mannúðaraðstoð og átök verða einungis leyst á pólitískum vettvangi.

Sameinuðu þjóðirnar geta aðeins fjármagnað u.þ.b. tvo þriðju hluta árlegs kostnaðar við mannúðaraðstoð. Brýna nauðsyn ber til að breikka og styrkja grundvöll aðstoðarinnar. Framlög til margra ára, sem eru ekki mörkuð tilteknum verkefnum, gera hjálparstofnunum kleift að auka sveigjanleika og bregðast skjótt við óvæntum aðstæðum og neyðarástandi sem ekki ratar í fréttir. Betri viðbrögð byggjast ekki eingöngu á auknum fjárveitingum heldur einnig á skilvirkni og ábyrgðarskyldu. Við höfum skuldbundið okkur til þess að láta mannúðaraðstoð, sem við fjármögnum, ná til fleira fólks á skilvirkari hátt með því að taka tillit til þarfar á hverjum stað. Við erum sannfærð um að konur geti og eigi að gegna veigameira hlutverki í skipulagningu og framkvæmd þróunarverkefna, að taka eigi meira tillit til fólks með sérþarfir og að einkageirinn gegni mikilvægu hlutverki við að finna nýstárlegar og hagkvæmari leiðir til hjálpar þar sem neyðarástand ríkir. Við eigum einnig að brúa bilið milli mannúðaraðstoðar og langtímaþróunarsamvinnu.

Ekki er með öllu hægt að koma í veg fyrir neyðartilvik en unnt er að draga verulega úr neikvæðum áhrifum þeirra með því að auka áfallaþol samfélaga, einkum á svæðum þar sem búast má við jarðskjálftum, flóðum og öðrum náttúruhamförum. Slíkt verkefni á að skipuleggja á landsvísu og taka tillit til á öllum stigum í ferlinu. Við erum reiðubúin að styðja þessa viðleitni í samstarfi við þróunarríkin.

Núverandi ástand, þar sem 60 milljónir manna hafa þurft að flýja heimkynni sín, er óviðunandi. Engu að síður neitum við að gefast upp. Aldrei hafa jafn margir nauðstaddir notið mannúðaraðstoðar. Þúsundir hjálparstarfsmanna um allan heim vinna baki brotnu dag hvern oft við erfiðar og hættulegar aðstæður. Þeir eiga skilið stuðning okkar og viðurkenningu og við getum öll lagt okkar af mörkum, hvert á sinn hátt, hver sem við erum og hvar sem við erum. Það er ábyrgð okkar og til marks um virðingu fyrir mannlegum grunngildum.

Lilja Alfreðsdóttir, Isabella Lövin, Lenita Toivakka, Børge Brende og Kristian Jensen.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2016.