Íslensk þjóð stendur á tímamótum. Framundan eru brýn verkefni eins og kjarasamningar, afnám gjaldeyrishafta, breytingar á húsnæðiskerfinu og afnám verðtryggingar. Við úrlausn þessara verkefna verðum við að sýna samstöðu og sanngirni. Tryggja stöðugleika og áframhaldandi uppbyggingu innviða, s.s. heilbrigðis- og menntakerfis.
Vinna, vöxtur, velferð
Frá því að ný ríkisstjórn tók við hefur hagvöxtur á Íslandi verið einn sá almesti í Evrópu. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur lagt áherslu á að hætta að safna skuldum því þá fer stór hluti teknanna í að borga vexti í stað þess að nýtast í það sem skiptir mestu máli, félagslegt öryggi, heilbrigði, menntun og trausta innviði. Framlög til heilbrigðismála hafa nú verið stóraukin og hafa í raun aldrei verið meiri sem og framlög til félagsmála en á þessum sviðum mun þó þurfa að gera enn betur. Frá því að ríkisstjórnin tók við hefur störfum á Íslandi fjölgað um meira en 10.000.
Jöfn tekjuskipting og minnst fátækt
Kaupmáttur landsmanna er nú orðinn meiri en nokkru sinni fyrr. Aldrei þessu vant hafa umsamdar launahækkanir skilað sér nær allar í auknum kaupmætti vegna þess að verðbólga hélst í lágmarki. Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa aukist. Þar spilar leiðrétting húsnæðismála stórt hlutverk sem og lækkanir á tollum, gjöldum og sköttum. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar er Ísland nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. En þrátt fyrir að ástandið sé gott þá eigum við að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátt samfélag jöfnuðar, og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.
Stöðugleiki og sanngirni
Stöðugleiki er ein mikilvægasta undirstaða heilbrigðs efnahagslífs. Við búum nú við stöðugleika og möguleikar til áframhaldandi kaupmáttaraukningar eru miklir. Verðbólga er engin. Í ljósi stöðunnar er mikilvægt að samfélagslegur sáttmáli sé til staðar. Yfirvofandi kjarasamningar mega ekki ógna stöðugleikanum. Það er líka ámælisvert að menn hækki nú stjórnarlaun um tugi prósenta og óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa er af sama meiði. Óréttlátar kröfur, svo ekki sér meira sagt.
Stóra málið
Mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa afnám gjaldeyrishafta. Leiðarljósið í þeirri vinnu er að tryggja hagsmuni Íslands. Stærsta hindrunin við losun hafta hefur verið hin óuppgerðu slitabú föllnu bankanna. Þar liggja enn kröfur upp á þúsundir milljarða. Langstærstur hluti krafnanna eru í eigu erlendra vogunarsjóða. Þeir keyptu kröfurnar á brunaútsölu eftir fall bankanna og hafa hagnast gríðarlega, að minnsta kosti á pappírunum. Matið á verðmæti krafnanna sveiflast, m.a. eftir gengi gjaldmiðla en það nemur yfir 20 milljörðum Bandaríkjadala eða sem nemur yfir 2.500 milljörðum króna.
Gæta hagsmuna þjóðarinnar
Það munaði litlu árið 2012 að stjórnvöld spiluðu frá sér stöðunni gagnvart kröfuhöfum bankanna vegna sama hugarfars og réði för í Icesave-málinu. Frá því að ný ríkisstjórn tók við hefur algjör kúvending orðið í þessum málum. Stefna ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs er að allar ákvarðanir, varðandi afnámið, eru byggðar á þeim forsendum að tryggt sé að almenningur á Íslandi þurfi ekki að taka á sig auknar byrðar – enda eru þær þegar orðnar nægar vegna falls bankanna.
Húsnæðismál og afnám verðtryggingar
Svona að lokum er rétt að nefna fleiri stór og mikilvæg mál sem framundan eru, það eru án efa húsnæðismálin og afnám verðtryggingar. Húsnæðismálin hafa alla tíð verið á forgangslista okkar Framsóknarmanna. Markmið okkar er að tryggja möguleika allra á að búa við öryggi og tryggja jafnræði í aðgangi að íbúðalánum óháð búsetu.
Núverandi ríkisstjórn hefur nú þegar ráðist í ýmsar aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili, styðja leigjendur og gera fólki betur kleift að kaupa fyrstu íbúð eða stækka við sig. Fyrirliggjandi eru umfangsmiklar tillögur að nýju húsnæðiskerfi sem félagsmálaráðherra mun kynna fljótlega en með því verða öll búsetuform styrkt, hvort sem fólk tekur lán til að kaupa íbúð, leigir eða er þátttakandi í húsnæðissamvinnufélagi. Stefnt er á að félagslega kerfið verður bætt og sérstaklega hugað að lánveitingum á svæðum þar sem markaðurinn virkar ekki sem skyldi.
Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar á neytendalánum hefur skilað niðurstöðu í samræmi við stjórnarsáttmálann og ríkisstjórnin hefur samþykkt að unnin verði frumvörp á þeim grundvelli. Sú vinna stendur nú yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Framsóknarflokkurinn ályktaði á nýliðnu flokksþingi að verðtrygging skyldi afnumin af nýjum húsnæðislánum.
Í ljósi stöðunnar þá bind ég miklar væntingar til þess að allir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi Íslendinga muni standa þétt saman og leysa ofangreind mál í sátt.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Greinin birtist í DV 17. apríl 2015.