Ég vil fjármálakerfi sem er hagkvæmt og traust og þjónar landsmönnum öllum, jafnt heimilum og atvinnulífi. Fjármálakerfi sem er stöðugt og getur tryggt nauðsynlega innviði öllum stundum. Aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði eru einstakar til mótunar framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar, þar sem eignarhald Ríkissjóðs Íslands á fjármálafyrirtækjum er með því umfangsmesta meðal ríkja í Evrópu. Ekki aðeins getur ríkisvaldið sett lagaumgjörð um bankana og þannig haft áhrif á framtíðarskipan fjármálakerfisins heldur getur það náð fram breytingum sem eigandi þeirra. Endurskipulagning bankakerfisins eftir fjármálaáfallið hefur tekist vel, bankarnir eru traustir og gæði eigna hafa aukist umtalsvert síðustu ár.
Engin framtíðarsýn í drögum að eigendastefnu
Hinn 10. febrúar sl. birti fjármála- og efnahagsráðherra uppfærð drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkissjóður stefnir að því að eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess. Að öðru leyti er nefnt að 60-66% eignarhlutur í bankanum verði seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkaði. Ríkissjóður stefnir að því að selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa.
Fjármálakerfið þjónusti heimili og fyrirtæki
Áður en lengra er haldið og tilkynnt er um umfangsmikla eignasölu á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum þarf að ákveða hvernig fjármálakerfi hentar okkur best. Markmiðið hlýtur að vera að bankakerfið þjóni heimilum og atvinnulífi á hagkvæman hátt og að fjármálakerfið sé traust. Í þeirri vinnu þarf meðal annars að horfa til eftirtalinna sjónarmiða.
Heildarstærð bankakerfisins. Skoða þarf umfang bankakerfisins, meta hvort núverandi stærð þess sé æskileg og hvort hægt væri að ná fram frekari stærðarhagkvæmi í kerfinu. Ný eigendastefna skilar hér auðu.
Eignarhlutur og þátttaka á fjármálamarkaði. Meta þarf hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera til skemmri og lengri tíma litið ásamt því að skoða hversu stór þátttakandi ríkissjóður á að vera á fjármálamarkaði. Í ljósi sögunnar er rétt að ríkissjóður sé leiðandi fjárfestir í a.m.k. einum banka.
Endurskipulagning fjármálakerfisins. Skoða þarf hvort hagkvæmt sé að sameina ákveðnar einingar eða skipta þeim upp. Í þessu gætu falist möguleikar til hagræðingar og lækkunar kostnaðarhlutfalla.
Aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi. Greina þarf leiðir til að draga úr áhættu fjármálakerfisins gagnvart ríkissjóði og kanna meðal annars hvort aðskilnaður á viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi komi til með að vera heppilegt fyrirkomulag í því sambandi. Þennan þátt þarf sérstaklega að skoða með hliðsjón af því hver þróunin er hjá öðrum ríkjum.
Dreift eignarhald eða leiðandi fjárfestar. Skoða þarf gaumgæfilega hvaða form af eignarhaldi hentar best hagsmunum hagkerfisins og líta til þess hversu burðug eftirspurnarhliðin er í þeim efnum. Einnig ber að líta á fýsileika erlends eignarhalds, hvað sé farsælt til lengri tíma litið og skoða Norðurlandaríkin sérstaklega.
Erlend lánsfjármögnun. Með hækkandi lánshæfismati samhliða trúverðugri endurreisn hagkerfisins hefur fjármögnunarkostnaður bankakerfisins lækkað verulega. Hann er hins vegar ennþá í hærri kantinum. Greina þarf hvernig bankakerfi geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka og hvernig samkeppnishæfni þeirra gæti aukist með skynsamlegu rekstrarfyrirkomulagi.
Alþjóðlegur samanburður. Afar brýnt er að líta til alþjóðlegrar þróunar og taka mið af því sem hefur reynst öðrum þjóðum vel.
Tillaga til stjórnvalda
Ég legg til að settur verði á laggirnar hópur sérfræðinga sem gerir drög að vegvísi fyrir framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar þar sem ofangreindir þættir verði skoðaðir. Markmiðið verði að móta tillögu að skipulagi á fjármálamarkaði sem komi til með að þjónusta íslensk heimili og fyrirtæki á ábyrgan og farsælan hátt. Sérstaklega skal litið til annarra lítilla opinna hagkerfi og reynslunnar á Norðurlöndum. Einnig kann að vera skynsamlegt að ríkissjóður skilgreini fyrirfram hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar á fjármálamarkaði áður en kemur til söluferlis í þeim tilgangi að auka fyrirsjáanleika og trúverðugleika á markaðnum.
Það er einstakt tækifæri og dauðafæri til að útfæra farsæla stefnu er varðar íslenskan fjármálamarkað og því er brýnt að nýta þetta tækifæri vel og vanda til verks.
Lilja Alfreðsdóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2017.