Categories
Greinar

Fjárfestum í framtíðinni

Deila grein

04/05/2018

Fjárfestum í framtíðinni

Kennaraskortur er yfirvofandi. Háskólarnir brautskrá ekki nægjanlega marga kennara til þess að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni og meðalaldur kennara nálgast 50 ár.

Þá er talið að einungis helmingur útskrifaðra grunnskólakennara starfi við fagið, en kennarar nefna gjarnan lág laun og mikið álag í vinnu sem ástæðu þess að þeir leyti á önnur mið.

Ekkert samfélagslegt verkefni er okkur mikilvægara en það að bregðast við þessu. Ekkert verkefni er á hverjum tíma mikilvægara en það að sjá til þess að næsta kynslóð sé vel í stakk búin til þess að takast á við það sem koma skal.

Skólarnir okkar verða aldrei betri en starfsfólkið sem í þeim er. Börnin okkar hafa síðustu misseri ekki verið að koma vel út í alþjóðlegum samanburði, en það er ljóst að ekki verður hægt að snúa þeirri þróun við ef ekki verður hægt að tryggja aðgang þeirra að hæfum kennurum.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík ætlar að forgangsraða í þágu skólamála. Við lítum svo að að ef ekki sé til fjármagn í stórátak í þessum málum þá sé ekki til fjármagn í nein önnur verkefni.

Ef við komumst í meirihluta að loknum borgarstjórnarkosningunum í vor munum við:

  1. Hækka laun leik- og grunnskólakennara um 100.000 kr. á mánuði.
  2. Draga úr miðstýringu og láta féð renna beint til skólanna.
  3. Stytta vinnuviku leik- og grunnskóla í 35 klst.

Kennarar barnanna okkar ættu að vera okkar hæfasta fólk en neikvæð orðræða um kennarastarfið í leik- og grunnskólum hefur leitt til þess að ungt hæfileikafólk íhugar kennaranám ekki lengur sem valkost, þessu vill Framsóknarflokkurinn breyta.

Við verðum að gera kennarastarfið eftirsótt á ný. Við verðum að fjárfesta í framtíðinni.

Snædís Karlsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. maí 2018.