Categories
Greinar

Fjögur skref til farsældar

Deila grein

29/06/2015

Fjögur skref til farsældar

Sigrún Magnúsdóttir_001Íslenska þjóðin varð fyrir stóráfalli haustið 2008. Það viðskiptaumhverfi sem skapaðist með aðild Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem fjármagnsflutningar milli landa voru algjörlega frjálsir, varð meðal annars til þess að íslenska bankakerfið stækkaði mjög ört og efnahagsreikningar bankanna samsvöruðu tífaldri landsframleiðslu. Ljóst var að stjórnvöld gátu ekki bjargað bankakerfinu vegna stærðar þess og þeirrar áhættu sem í því fólst fyrir ríkissjóð Íslands. Aðvaranir, meðal annars seðlabankastjóra, voru hafðar að engu og því fór sem fór og heimilunum í landinu, fyrirtækjunum og ríkissjóði var steypt í botnlausar skuldir. Í framhaldi beitti forsætisráðherra sér fyrir setningu neyðarlaganna sem öðluðust gildi 6. október 2008. Neyðarlögin gerðu ríkinu kleift að ráðast í aðgerðir og gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Icesave, skref tvö
Bretar skelltu hins vegar á okkur hryðjuverkalögum og ásamt Hollendingum kröfðu okkur um of fjár vegna skuldbindinga sem til var stofnað af einkabönkum. Ef orðið hefði verið við kröfu þeirra hefðu Íslendingum verið bundnar óbærilegar byrðar til framtíðar. Ógæfu Íslands varð þó ekki allt að vopni. Hópur Íslendinga í Bretlandi snerist til varnar og hélt á lofti rétti og hagsmunum Íslands. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna reyndi ítrekað að verða við kröfum Breta og Hollendinga og samþykktu lög þar að lútandi, þrátt fyrir eindregna andstöðu framsóknarmanna undir einbeittri forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Forseti Íslands vísaði í tvígang lögum um Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu sem þjóðin felldi, í framhaldinu unnu Íslendingar fullan sigur fyrir erlendum dómstól.

Skuldalækkun heimilanna, þriðja skrefið
Framsóknarmenn gengu til kosninga 2013 með það fyrirheit að vinna á veðskuldum heimila sem stofnað var til vegna fasteignakaupa. Góður sigur vannst og Sigmundur Davíð myndaði ríkisstjórn. Í samstarfi við sjálfstæðismenn voru fasteignaveðskuldir heimilanna færðar niður, umfram 4,8% árlega verðbólgu. Lækkunin er varanleg og árleg greiðslubyrði léttist sem því nemur. Þetta var gert þrátt fyrir hávær mótmæli stjórnarandstöðu, en framsóknarmenn standa við orð sín.

Afnám gjaldeyrishafta, fjórða skrefið
Fjármagnshöft voru sett á í framhaldi af neyðarlögunum 2008 vegna þess fjármálaútstreymis sem var mögulega í vændum í kjölfar fjármálaáfallsins. Það var fyrirheit framsóknarmanna að leysa þann vanda á þann hátt að hagsmunir íslensku þjóðarinnar yrðu varðir við losun fjármagnshafta. Efst á blaði var að varðveita efnahagslegan stöðugleika. Sigmundur Davíð stóð í lappirnar eins og hann er vanur og í góðri samvinnu við formann samstarfsflokksins, Bjarna Benediktsson, hefur þeim tekist, ásamt hópi snjallra samstarfsmanna, að búa svo um hnútana að allar horfur eru á því að með skipulögðum aðgerðum verði hægt að minnka verulega skuldir þjóðarbúsins og lækka þar með árlega vaxtabyrði um marga tugi milljarða. Afnám fjármagnshafta er mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar.

Það hagsmunamál er að leysast farsællega.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu  26. júní 2015.