Categories
Greinar

Framfaraskref sem fjölgar tækifærum

Deila grein

21/06/2019

Framfaraskref sem fjölgar tækifærum

Kenn­ara­frum­varpið, ný lög um mennt­un, hæfni og ráðningu kenn­ara og skóla­stjórn­enda við leik­skóla, grunn­skóla og fram­halds­skóla, var samþykkt á Alþingi í vik­unni. Það er fagnaðarefni en með þeim er lög­fest­ur hæfnirammi um mennt­un og hæfni kenn­ara og skóla­stjórn­enda sem lýs­ir bet­ur þeirri hæfni sem kenn­ar­ar þurfa að búa yfir til sam­ræm­is við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Ég er þakk­lát þeim fjöl­mörgu sem lögðu hönd á plóg við und­ir­bún­ing þessa mik­il­væga máls en lög­in eru ár­ang­ur góðrar sam­vinnu allra helstu hags­munaaðila.

Meg­in­mark­mið nýrra laga er að stuðla að sveigj­an­legra skóla­kerfi – nem­end­um og kenn­ur­um til hags­bóta. Við vilj­um að all­ir sem leggja stund á kennslu- og upp­eld­is­störf í leik-, grunn-, og fram­halds­skól­um hafi mennt­un í sam­ræmi við störf sín og ábyrgð. Þessi nýju lög eru fram­fara­skref í þá átt og að mínu mati munu þau skapa fleiri tæki­færi fyr­ir kenn­ara til þess að þróa sig í starfi, og stuðla að meiri sam­fellu og sam­starfi skóla­stiga. Auk­in áhersla á starfsþróun kenn­ara og gæði skóla­starfs í nýju lög­un­um er enn­frem­ur til sam­ræm­is við mark­mið okk­ar um að efla starfs­um­hverfi kenn­ara og stuðla að fag­legu sjálf­stæði þeirra líkt og kveðið er á um í stjórn­arsátt­mála.

Ég gleðst inni­lega yfir þeim já­kvæðu vís­bend­ing­um sem við sjá­um nú varðandi aukna aðsókn í kenn­ara­nám og viðbrögð við þeim aðgerðum til að fjölga kenn­ur­um sem við kynnt­um í vor. Um­sókn­um fjölg­ar um rúm­lega 200 milli ára í há­skól­un­um fjór­um sem bjóða upp á kenn­ara­nám. Hlut­falls­lega er aukn­ing­in mest hjá Lista­há­skóla Íslands þar sem um­sókn­um um nám í list­kennslu­deild fjölgaði um 170% milli ára, en um­sókn­um um grunn­nám í grunn­skóla­kenn­ara­fræðum við Há­skóla Íslands fjölgaði um 45%. Sér­lega ánægju­legt er að karl­kyns um­sækj­end­um fjölg­ar í þeim hópi; helm­ingi fleiri karl­ar sóttu um grunn­skóla­kenn­ara­nám í Há­skóla Íslands en í fyrra og þre­falt fleiri í nám í leik­skóla­kenn­ara­fræðum. Þá fjölg­ar einnig um­sókn­um um nám leiðsagna­kenn­ara. Þess­ar töl­ur gefa til­efni til ákveðinn­ar bjart­sýni og í sam­hengi við þá færn­ispá um kenn­araþörf sem við vinn­um eft­ir nú má leiða að því lík­um að við séum á und­an áætl­un gangi hag­stæðar sviðsmynd­ir eft­ir um út­skrift­ir kenn­ara­nem­anna.

Mennt­un ávaxt­ar mannauð okk­ar hverju sinni, öfl­ugt mennta­kerfi er for­senda fram­fara og það kerfi er borið uppi af kenn­ur­um. Við vilj­um skapa kenn­ur­un­um okk­ar gott starfs­um­hverfi og spenn­andi tæki­færi, nýju lög­in eru þýðing­ar­mik­ill hluti af því verk­efni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júní 2019.