Kennarafrumvarpið, ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, var samþykkt á Alþingi í vikunni. Það er fagnaðarefni en með þeim er lögfestur hæfnirammi um menntun og hæfni kennara og skólastjórnenda sem lýsir betur þeirri hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Ég er þakklát þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við undirbúning þessa mikilvæga máls en lögin eru árangur góðrar samvinnu allra helstu hagsmunaaðila.
Meginmarkmið nýrra laga er að stuðla að sveigjanlegra skólakerfi – nemendum og kennurum til hagsbóta. Við viljum að allir sem leggja stund á kennslu- og uppeldisstörf í leik-, grunn-, og framhaldsskólum hafi menntun í samræmi við störf sín og ábyrgð. Þessi nýju lög eru framfaraskref í þá átt og að mínu mati munu þau skapa fleiri tækifæri fyrir kennara til þess að þróa sig í starfi, og stuðla að meiri samfellu og samstarfi skólastiga. Aukin áhersla á starfsþróun kennara og gæði skólastarfs í nýju lögunum er ennfremur til samræmis við markmið okkar um að efla starfsumhverfi kennara og stuðla að faglegu sjálfstæði þeirra líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála.
Ég gleðst innilega yfir þeim jákvæðu vísbendingum sem við sjáum nú varðandi aukna aðsókn í kennaranám og viðbrögð við þeim aðgerðum til að fjölga kennurum sem við kynntum í vor. Umsóknum fjölgar um rúmlega 200 milli ára í háskólunum fjórum sem bjóða upp á kennaranám. Hlutfallslega er aukningin mest hjá Listaháskóla Íslands þar sem umsóknum um nám í listkennsludeild fjölgaði um 170% milli ára, en umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%. Sérlega ánægjulegt er að karlkyns umsækjendum fjölgar í þeim hópi; helmingi fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þá fjölgar einnig umsóknum um nám leiðsagnakennara. Þessar tölur gefa tilefni til ákveðinnar bjartsýni og í samhengi við þá færnispá um kennaraþörf sem við vinnum eftir nú má leiða að því líkum að við séum á undan áætlun gangi hagstæðar sviðsmyndir eftir um útskriftir kennaranemanna.
Menntun ávaxtar mannauð okkar hverju sinni, öflugt menntakerfi er forsenda framfara og það kerfi er borið uppi af kennurum. Við viljum skapa kennurunum okkar gott starfsumhverfi og spennandi tækifæri, nýju lögin eru þýðingarmikill hluti af því verkefni.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júní 2019.