Categories
Greinar

Framsókn gegn sýklalyfjaónæmi

Deila grein

29/05/2019

Framsókn gegn sýklalyfjaónæmi

Ríkisstjórnin kynnti í dag að Ísland stefndi fyrst ríkja að banni á dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Þetta hefur verið mikið baráttumál Framsóknar eins fólk hefur eflaust tekið eftir. Í febrúar héldum við fjölmennan opinn fund þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla og Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands og yfirlækni við sýklafræðideild Landspítalans fjölluðu um þá ógn sem heiminum stafar af sýklalyfjaónæmi. Spár vísindamanna sýna að ef ekki er brugðist við af mikilli festu þá muni um 10 milljónir deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050, fleiri en af völdum krabbameins.

Einstök staða í íslenskum landbúnaði
Á Íslandi búum við að einstakri stöðu þar sem sýklalyfjanotkun er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Vandamálið felst nefnilega að hluta til í því að á mörgum verksmiðjubúum meginlandsins er sýklalyfjum bætt í fóður til að koma í veg fyrir sýkingar og auka vöxt búfjár. Það þekkist ekki hér þar sem sýklalyf eru einungis gefin undir handleiðslu dýralækna.

Lýðheilsa og dýraheilbrigði
Þessi framsókn Íslands gegn sýklalyfjaónæmi er tengd því sem oft er kallað hráa-kjöts-málið. Við í Framsókn höfum lagt gríðarlega áherslu á það í vinnu við þingsályktun og lagafrumvarp að tryggja það að lýðheilsa þjóðarinnar og heilbrigði dýra séu eins og best verður á kosið og að íslenskur landbúnaður keppi á jafnréttisgrundvelli við innflutt matvæli. Við höfum óttast að óheftur innflutningur matvæla frá svæðum með stórum verksmiðjubúum þar sem dýraheilbrigði er fyrir borð borið myndi refsa íslenskum matvælaframleiðendum fyrir að framleiða hágæða matvæli og einfaldlega knýja þá til að draga úr gæðum í framleiðslu. Með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið er íslenskur landbúnaður í sókn en ekki vörn. Þess ber að geta að bann við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum nær ekki aðeins til kjöts heldur einnig annarra matvæla, svo sem grænmetis.

Aukið eftirlit á markaði
Viðbótartryggingar eða vottorð verður að leggja fram við innflutning matvæla og verður sérstakt átak gert í því að kanna að þessar viðbótartryggingar séu réttar. Auk þess verður aukið eftirlit á markaði til að tryggja það að við getum treyst því að þau matvæli sem standa okkur til boða standist þær kröfur sem neytendur gera. Átak verður gert í upprunamerkingum til að neytendur viti hvaðan matvælin koma.

Lífsgæði að geta gengið að hreinum matvælum
Það er ákaflega ómaklegt hvernig íslenskum bændum hefur verið stillt upp sem andstæðingum neytenda og hefur verslunin beitt því áróðursbragði óspart í baráttu sinni fyrir óheftum innflutningi á kjöti. Það er ljótur leikur. Það eru hagsmunir allra að við getum treyst því að þær matvörur sem við leggjum til munns séu ósýktar. Í því felast mikil lífsgæði að geta gengið að hreinum og góðum landbúnaðarafurðum. Þessu hafa Íslendingar áttað sig á og á síðustu mánuðum hefur meðvitund Íslendinga um mikilvægi gæða þess sem við látum ofan í okkur stóraukist. Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 29. maí 2019.