Starfsþróun kennara getur m.a. falið í sér formlegt nám og endurmenntun, námskeið, þátttöku í þróunarverkefnum, ráðgjöf, ráðstefnur og heimsóknir í aðra skóla. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju kennara og hefur jákvæð áhrif á árangur þeirra í starfi. Niðurstöður úttekta og menntarannsókna gefa okkur góðar vísbendingar um hvar mikilvægast er að efla starfsþróun og fjölga tækifærum í símenntun fyrir kennara. Samkvæmt alþjóðlegu TALIS-menntarannsókninni telja íslenskir kennarar á unglingastigi mesta þörf nú vera fyrir starfsþróun um hegðun nemenda og stjórnun í kennslustofum, ásamt starfsþróun í kennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku. Athyglivert er einnig að samkvæmt TALIS er algengara í samanburðarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) að kennarar þjálfi eða fylgist með kennslu samkennara eða greini eigin kennslu, en hér á landi.
Það felast mörg tækifæri í öflugri samvinnu og skýrri heildarsýn þegar kemur að starfsþróun kennara í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóg í því verkefni sem býr að baki tillögunum, þær eru okkur gott leiðarljós í þeirri vinnu sem nú stendur yfir við mótun nýrrar menntastefnu til ársins 2030.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.